131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[19:12]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri kannski rétt að vita stefnu Samfylkingarinnar í þjónustugjöldum. Eiga þau ekkert að hækka eða hvað? Eiga þau að hækka til samræmis við verðlag eða hvað? Ég vil fá að vita um þetta mál. (Gripið fram í.) Svar við því já. En vegna góðs reksturs ríkissjóðs hefur fjármálaráðherra komið í tillögum sínum að hækkun á þjónustugjöldum sem hafa ekki farið alveg að verðlagi, ekki þannig að það hafi orðið raunlækkun eins og aukatekjur ríkissjóðs, eins og í áfenginu og fleiru. Menn þurfa því að fara yfir þetta. Er það stefna Samfylkingarinnar að hækka ekki þjónustugjöld? Hvernig ætla menn að snúa sér í því? Ætla menn bara að gera það í ríkissjóði en ekki annars staðar í samfélaginu, eða hvað? Það væri gaman að vita hver stefna Samfylkingarinnar er í málinu.

Málið er að það er alveg sama hve oft menn fara yfir það og reyna að þyrla upp ryki og reyna að fela það góða sem ríkisstjórnin er að gera í skattalækkunum, þá gengur það ekki. Ykkur tekst það ekki. Þið hjakkið alltaf í sama málinu, virðulegir þingmenn stjórnarandstöðunnar, og menn eiga að vera sanngjarnir í málflutningi sínum og samkvæmir. Ég vil fá að vita stefnu Samfylkingarinnar í þjónustugjöldunum, aukatekjunum, áfenginu og öllu sem verið er að fara í gegnum. Hvernig ætlið þið að snúa ykkur í þessu? Samfylkingin hefur lagt til tugi milljarða í útgjaldahækkanir, margar tillögur frá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni, hvar ætlar hann að fá fjármuni fyrir því? Jú, með því að hækka skatta á landsmenn. Það er það eina sem þið kunnið.