131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[19:17]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fæ ekki svar við spurningu minni, hver stefna Samfylkingarinnar sé í málinu. (Gripið fram í: Engin.) Hún er engin. (Gripið fram í.) Verðtryggðar aukatekjur. Ég gat ekki skilið annað en að hann væri að tala um verðtryggðar aukatekjur þannig að það er sem sagt stefna Samfylkingarinnar að verðtryggja aukatekjur og aðrar tekjur ríkissjóðs, þjónustugjöld. Ég heyrði ekki betur.

Varðandi persónuafslátt, við erum ekki að ræða hann hér. Hvora aðferðina á að fara? Það væri gaman að vita hvaða skuldbindingar menn ætla að tryggja með launavísitölu. Ég skil ekki í hv. þingmanni að vera að taka þetta hérna upp, ég átta mig ekki á því. 42 milljarðar og 15 milljarðar og allt þetta. Við skulum ræða það þegar við förum í skattalagabreytingarnar á morgun, (EOK: Rétt.) þá getum við átt orðastað um þetta mál.

Að lokum í þessu versi varðandi aukatekjur ríkissjóðs og önnur þjónustugjöld sem er verið að færa nær verðlagi, ekki að verðlagi — það er raunlækkun á mestöllu þessu og ég fagna því að ríkisstjórnin er að lækka skatta líka með þessu eins og ég fór í gegnum í áfengisumræðunni. Það er verið að lækka skatta. Svo erum við enn frekar að fara í gegnum tekjuskattslækkanir og eignarskattslækkanir þar ofan í kaupið. Við erum í góðum málum hér og megum vera stolt af verkum okkar. Þið eigið að vera ærlegir, hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, og viðurkenna þetta.