131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda.

299. mál
[19:26]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eitt megintilefni þess að þetta frumvarp er flutt er að kostnaður vegna innheimtna sjóðsins hefur hækkað verulega og það þurfti þess vegna að hækka kostnaðarhlutfall eða möguleika á því að taka ekki 2% heldur allt að 4% í innheimtuþóknun til sjóðsins. Við segjum að það sé full ástæða til að fækka stjórnarmönnum úr sex í fimm í Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og gerum tillögu um að sá möguleiki á því að spara fyrir sjóðinn sé nýttur.

Virðulegi forseti. Það má sjá hér eins og víða annars staðar í umræðum og afgreiðslu fulltrúa ríkisstjórnarinnar að þeir hafa engan áhuga fyrir því að spara. Segið svo ekki að við höfum ekki lagt okkar af mörkum í því skyni að reyna að spara.