131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

191. mál
[20:13]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jónína Bjartmarz hefur gert ágæta grein fyrir efni frumvarpsins sem hér um ræðir, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað. Eins og hún rakti er með frumvarpinu verið að heimila eingöngu rafræna útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs ef svo ber undir.

Við 1. umr. málsins í þinginu fékk það mjög góðar móttökur. Það má eiginlega segja að sama viðhorf hafi ríkt í allsherjarnefnd, að almennt hafi nefndarmenn verið ánægðir með efni frumvarpsins og það markmið þess að heimilt væri að gefa út Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað eingöngu á rafrænu formi.

Hins vegar kom einnig fram heilmikil gagnrýni á frumvarpið í nefndinni, m.a. í umsögnum, sem laut að ákveðnum tilgreindum þáttum og því hvernig breytingin ætti að eiga sér stað. Ég er mjög ánægð með það að í allsherjarnefnd var tekið tillit til gagnrýninnar að flestu leyti. Það má segja að nefndin hafi valið að fara öruggu leiðina og að í allsherjarnefnd hafi ríkt ákveðin afturhaldssemi þegar komið var að þessu frumvarpi.

Við vorum nokkuð sammála um að rétt væri að stíga varlega til jarðar þegar um svo mikilvægan grundvöll réttarríkisins eins og birtingu laga er að ræða. Réttarríkishugtakið byggir á þeim grunni að lög og reglur samfélagsins séu aðgengilegar og hægt sé að fara eftir þeim. Til að svo geti orðið þarf að birta lagareglurnar með tilhlýðilegum hætti.

Í umsögnum var líka bent á að skv. 27. gr. stjórnarskrárinnar hvílir ákveðin athafnaskylda á löggjafarvaldinu í þessum efnum því að stjórnarskráin kveður á um að lög skuli birta og að um birtingarháttu og framkvæmd laga skuli fara að landslögum. Því var það að frumvarpið fékk nokkra gagnrýni fyrir að verið væri að framselja í of miklum mæli hlutverk sem löggjafarvaldið hefði samkvæmt stjórnarskránni til framkvæmdarvaldsins. Ég fagna því að allsherjarnefnd féllst á að taka tillit til þeirrar gagnrýni og má segja að við höfum lagfært frumvarpið að mestu leyti hvað þetta varðar.

Markmiðið er að endurskoða lögin með tilliti til möguleika á rafrænni birtingu samhliða eða í stað hefðbundinnar birtingar. Í greinargerð með frumvarpinu er fjallað nokkuð um undirbúning frumvarpsins og sérstök nefnd starfaði að því að undirbúa þá vinnu. Í því skyni var útbúinn sérstakur gagnagrunnur Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs sem var opnaður á netinu 1. febrúar 2002. Upp frá því hafa Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað verið aðgengileg á netinu samhliða hinni prentuðu útgáfu.

Síðan er rakið að góð reynsla af útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs á netinu hafi orðið til þess að það var heimilað með lögum frá árinu 2002 að hætta prentaðri útgáfu Lögbirtingablaðs og gefa það eingöngu út á rafrænu formi, þó þannig að þeir sem þess óska geti keypt rafræna útgáfu blaðsins prentaða.

Síðan, að fenginni tæplega þriggja ára reynslu af rafrænni útgáfu Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs, þykir tímabært að leggja til að lögfest verði sams konar heimild til að birta Stjórnartíðindi eingöngu á rafrænu formi. Endurskoðunin gengur út á það en jafnframt er tekið fram að það sé mjög mikilvægt gera þetta vegna þess að slík útgáfa sé til þess fallin að gera birtingu laga, stjórnvaldserinda og milliríkjasamninga skilvirkari og ódýrari án þess að á nokkurn hátt sé slakað á þeim kröfum sem ber að gera til réttaröryggis um miðlun upplýsinga af því tagi. Það er kannski um það sem gagnrýnin snerist að miklu leyti, hvort verið sé með þessari heimild, sem allir eru sammála um að leiði til aukinnar skilvirkni og hægðarauka fyrir þá sem þurfa að nota þessa texta, að slá á einhvern hátt of mikið af kröfunum sem gera þarf til slíkra reglna.

Í umsögnum kom fram gagnrýni á nokkra þætti, einkum tvo þætti, í fyrsta lagi 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins en samkvæmt upphaflega frumvarpstextanum gat dómsmálaráðherra ákveðið að Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað skyldu að hluta eða í heild eingöngu gefin út og dreift á rafrænan hátt enda væru öryggi og áreiðanleiki birtra upplýsinga tryggð. Þarna þótti mörgum, m.a. laganefnd Lögmannafélags Íslands og lagadeild Háskóla Íslands, eiga sér stað of mikið framsal til framkvæmdarvaldsins því skv. 27. gr. stjórnarskrárinnar hvíldi þessi skylda á löggjafarvaldinu og því bæri að kveða nánar á um þessa þætti í lögum, ekki væri nægilegt að gera það í reglugerð.

Ráðherra var jafnframt falið að mæla fyrir í reglugerð um hina rafrænu útgáfu þar á meðal um persónuvernd, gagnaöryggi og ákvörðun útgáfudags. Það fékk nokkurt pláss í þeim umsögnum sem við fengum til nefndarinnar að þarna væri um að ræða of rúmt framsal í ljósi þess að þessi athafnaskylda hvíldi á löggjafarvaldinu sem slíku og þar af leiðandi væri ekki unnt að framselja það.

Það kom líka fram heilmikil gagnrýni á 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins en þar er að finna nýmæli þess efnis að heimilt verði að birta eingöngu erlendan frumtexta milliríkjasamnings í C-deild Stjórnartíðinda ef samningurinn varðar afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni má ætlast til að skilji hið erlenda mál vegna menntunar sinnar eða annarrar sérhæfingar. Þarna er fyrst og fremst verið að hugsa um texta sem eru mjög sérhæfðir og eru jafnvel yfirleitt notaðir í frumtextanum af þeim sem þurfa að nota þá. Af hálfu ráðuneytisins var nefnt sem dæmi reglur um t.d. flugmál, alþjóðlegar reglur um flugmál og flugöryggi þar sem menn nota yfirleitt ensku textana og ensku hugtökin og það þjónaði litlum tilgangi að þýða slíka texta og þar af leiðandi væri mikilvægt að létta þeirri skyldu af ríkisvaldinu að þýða þá með miklum tilkostnað þegar þýðingin hefði kannski ekkert að segja auk þess sem allir sem þyrftu að nota slíkar reglur skildu frumtextann.

Það kom fram gagnrýni á þetta og einnig var bent á að í ljósi þess að heimilað er í 2. og 3. gr. frumvarpsins að beita svokallaðri tilvísunaraðferð, sem hv. þm. Jónína Bjartmarz lýsti nokkuð í máli sínu, þá væri nauðsynlegt að kveða tvímælalaust á um það í frumvarpinu að heimildir sem þar eru nefndar til að vísa til birtingar skv. 4. gr. laganna, eigi eingöngu við um reglur sem hafa verið birtar og þýddar á íslensku. Allsherjarnefnd tók þessa gagnrýni til greina og breytingartillögurnar sem við höfum lagt til eru líka þess efnis að þarna séu tekin af öll tvímæli um þetta.

Ég vil í örstuttu máli gera grein fyrir fyrirvaranum sem við höfðum á undirritun okkar á nefndarálitið, en auk mín skrifaði hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson undir með fyrirvara, og það gerðum við fyrst og síðast vegna þess að við teljum að það hefði verið gott að eyða örlítið meiri tíma í þá ágætu vinnu sem fór fram í allsherjarnefnd því þarna eru ýmis tæknileg úrlausnaratriði sem ég tel að hefði mátt skoða örlítið betur, m.a. það sem lýtur að þessari tilvísunaraðferð og um hvers konar texta við erum að tala og þó að ég styðji heils hugar og muni styðja efni frumvarpsins með þeim breytingum sem allsherjarnefnd hefur gert, þá held ég að það hefði verið fróðlegt úr því að verið var að opna þessi lög á annað borð að fara örlítið betur ofan í þau og skoða framkvæmdina. Við fengum m.a. fulltrúa frá þýðingardeild utanríkisráðuneytisins á fund okkar og þar komu fram ýmis atriði sem hefði verið ástæða til að skoða nánar, m.a. ýmis atriði sem lúta að því hvernig þýðingar fara í raun og veru fram og í hvaða mæli og kannski hefði verið ástæða til að gera einhver frekari atriði þar að umtalsefni í frumvarpinu. En svo langt sem það nær og með þeim breytingum sem hafa verið gerðar á því í hv. allsherjarnefnd þá erum við sátt við það eins og það lítur út núna og munum geta stutt það við afgreiðslu í þinginu.