131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

192. mál
[20:31]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er svo sem ekki mörgu við það að bæta sem hv. ræðumenn hafa sagt á undan mér. Ég vil einungis undirstrika það sem kom fram í ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar að nefndinni hafa borist ábendingar frá bæði Alþýðusambandi Íslands og Landvernd þar sem efnisatriðum um þetta mál er velt upp. Alþýðusamband Íslands kvartar undan því í umsögn sinni að aðilar atvinnulífsins, þ.e. Samtök atvinnulífsins, Samband íslenskra sveitarfélaga og í þessu tilfelli umhverfisráðuneytið, skuli hafa ætlað sér að sitja ein að þessu samráði. Það er ekkert óeðlilegt þó að Alþýðusambandinu sem átti einn fulltrúa af þessum níu í hollustuháttaráðinu hafi fundist að hér væri verið að bola sér frá borðinu. Þau kvarta undan því í umsögn sinni.

Nefndin hefur tekið þá ákvörðun að leggja þessa samráðsnefnd líka niður sem lögð var til í frumvarpinu og þá var ekki verið að bola einum frá borðinu frekar en öðrum. Þó er eitt í þessu máli sem verður að hafa í huga og þau stjórnvöld sem starfa eftir þessum lögum verða að skoða. Í mínum huga er alveg nauðsynlegt að stjórnvöld og þar af leiðandi umhverfisráðuneytið hafi opin augu fyrir því að verði áhrifanna af þessum breytingum vart á einhvern neikvæðan hátt gæti verið á ferðinni breyting sem þyrfti að skoða sérstaklega í ráðuneytinu. Það vakandi auga ráðuneytisins verður að vera til staðar. Þó að samráðið sé formlega aflagt er ekki þar með sagt að ráðuneytið eða stjórnvaldið þurfi að ganga fram hjá eða hunsa þá aðila sem eðlilegt er að komi að málum, fólk sem sýslar með þau atriði sem verið er að fjalla um.

Hollustuháttaráðið starfaði samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og þótt það hafi komið fram að starf þess hafi fyrst og fremst tengst gjaldskrám sveitarfélaganna fyrir lögboðið eftirlit heilbrigðisnefndanna kann vel að vera að upp hafi komið, og eigi eftir að koma upp, mál sem tengjast t.d. mengunarvörnum. Þá er eðlilegt að umhverfisráðuneytið, stjórnvaldið, hafi það í huga að í slíkum málum sé haft samráð við þá aðila sem sýsla með þau úti á akrinum. Á sama hátt má segja að eðlilegt sé að stjórnvaldið hafi vakandi auga fyrir því að haft sé samráð við þá aðila vinnumarkaðarins sem ASÍ er fulltrúi fyrir. Þegar þessi breyting hefur tekið gildi þarf stjórnvaldið að hafa vakandi auga með því að hér sé ekki verið að vinna neinn skaða því að ætlun umhverfisnefndar er alls ekki að láta neitt slíkt neikvætt leiða af þessari breytingu.

Við getum tekið undir það sem kemur fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um þetta mál, það er rétt að fram fari samráð á þessu sviði milli þeirra aðila sem hlut eiga að máli. Hér eftir verður það þá í höndum stjórnvaldsins, umhverfisráðuneytisins og þeirra stofnana sem starfa eftir lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir að sjá til þess að ekki sé lokað á samráð þótt lagagreinin sé farin út.