131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[20:47]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. Gunnars Birgissonar, framsögumanns og formanns menntamálanefndar, rita ég undir nefndarálitið með fyrirvara og mun ég nú gera grein fyrir honum.

Í fyrsta lagi vil ég fagna því sem hér er verið að gera, þ.e. að lækka endurgreiðslubyrði námslána um eitt prósentustig. Það er sannarlega tilefni til að fagna því að það skuli vera gert. Að hluta til er það gert vegna mikils þrýstings frá námsmönnum og þeim sem hafa þurft að standa undir endurgreiðslubyrði námslánanna, nefnilega því fólki sem starfar í atvinnulífinu, er með háskólamenntun og hefur verið að sligast undan endurgreiðslubyrðinni. Hv. þingmenn hafa fengið erindi frá þeim hópi fólks og er komið á annað ár að við fengum í hendur skýrslu um tölulegar upplýsingar um lánþega LÍN. Þetta er afar mikið plagg sem námsmenn og BHM þar á meðal hafa byggt rökstuðning sinn og kröfur sínar á.

Þó að fagna beri þeim áfanga sem er að nást verður að segjast eins og er að námsmannahreyfingarnar og BHM hefðu viljað fara aðra leið að málinu en ákveðið var að gera af stjórnvöldum. Námsmannahreyfingarnar áttu sæti í nefndinni sem undirbjó frumvarpið og í því starfi var lögð fram bókun af hálfu námsmannahreyfinganna. Bókun sú var til umfjöllunar í menntamálanefnd Alþingis við vinnslu málsins sem hefði gjarnan mátt hafa rýmri tíma til að sinna starfi sínu í þetta skiptið. Engu að síður fórum við eftir því sem við mögulega gátum í gegnum þau plögg sem við höfðum. Mér þótti afar athyglisverð sú bókun sem námsmannahreyfingarnar lögðu fram og BHM studdi en segja má að sú leið sem þar er lögð til til þess að létta endurgreiðslubyrðina virki afar skynsamleg þegar maður skoðar hana ofan í kjölinn. Ég skil kröfu námsmannahreyfinganna í þessum efnum að þeir vilji frekar fara þá leið sem þeir kalla skattaleiðina, leið sem byggir á frádrætti í skattkerfinu, þ.e. að veita endurgreiðendum námslána skattafslátt af árlegri afborgun til LÍN.

Fram kom í umfjöllun nefndarinnar að sú leið gæti verið nokkuð flókin og snúin að fara, en það breytir ekki því að rökin fyrir þeirri leið eru að ég tel skynsamleg og ekki nægileg mótrök að leiðin sé flókin og þess vegna hafi ekki verið hægt að fara hana.

Mig langar í máli mínu, hæstv. forseti, að fara í örfáum orðum yfir þau atriði sem námsmannahreyfingin lætur okkur í té í bókun sinni hvað skattaleiðin innifeli. Það byggir á því að námsmannahreyfingarnar telja að sýnt hafi verið fram á að hið opinbera hagnist beinlínis á auknum lántökum námsfólks úr lánasjóðnum og það hafi aldrei verið markmið með lögunum um lánasjóðinn frá 1992. Þau telja skattaleiðina vera vel rökstudda í þeirri skýrslu sem ég veifaði og er unnin af Þórólfi Matthíassyni árið 2002 fyrir Bandalag háskólamanna ásamt Sambandi íslenskra námsmanna erlendis og fjölda háskólamanna utan heildarsamtaka.

Skattaleiðin, eins og fram kemur í skýrslunni, sýnir fram á að hægt sé að ná tekjuaukningu ríkisins við aukna námsfjárfestingu með ákveðnum áhættudreifingarröksemdum. Sömuleiðis telja námsmannahreyfingarnar að lán á hvern lánþega séu að dragast saman og þau benda á ákveðin rök máli sínu til stuðnings í þeim efnum og segja að það bendi til þess að markmiði laganna um Lánasjóð íslenskra námsmanna sé stefnt í hættu varðandi jafna möguleika til náms. Mér þykir það athyglisverð röksemd hafandi starfað talsvert mikið að því að reyna að standa vörð um jafnan rétt námsmanna og jafna möguleika námsmanna til náms. Einnig segja námsmannahreyfingarnar að í skattaleiðinni sé fólginn ávinningur af auknum lántökum sem dreift sé á milli hins opinbera og lántakanna sjálfra. Sömuleiðis að hún tryggi jafnrétti til náms á þeim forsendum að þung endurgreiðslubyrði hafi beinlínis áhrif á námsval fólks.

Þá segja þau að skattaleiðin skerði ekki tekjustreymi lánasjóðsins og komi þar af leiðandi ekki niður á núverandi lántakendum og heldur ekki lántakendum framtíðarinnar. Svo segja hreyfingarnar að með tilliti til ávinnings ríkisins af hærra menntunarstigi og aukinni hagsæld í samfélaginu sé eðlilegt að greiddur sé einhvers konar arður af fjárfestingunni. Þau telja þjóðfélagsleg rök vera fyrir skattaleiðinni. Með henni sé stuðlað að aukinni og hraðari mannauðsuppbyggingu þjóðarinnar með því að hækka menntunarstig og þar með skatttekjur hins opinbera. Hér sé því ekki um að ræða neitt sérhagsmunamál fámenns hóps heldur hreinlega kjarabót fyrir alla þjóðina þegar til lengri tíma er litið.

Þá nefna þau að fyrirmyndir séu að skattafsláttarleiðinni og nefna þar vaxtabætur í íbúðalánakerfinu. Því þurfi ekki að finna upp hjólið í því að innleiða aðferð af þessu tagi. Að þeirra mati er þetta nokkuð einföld aðgerð þar sem unnt sé að forskrá allar upplýsingar nú orðið er varði lántökur hjá LÍN á skattskýrslu, þannig að mótrökin um það eins og ég nefndi áðan að þetta væri svo flókin leið halda kannski ekki á gervihnatta- og upplýsingaöld þegar allt er orðið tölvuskráð og við fáum skattframtalið okkar meira eða minna forskráð upp í hendurnar.

Að lokum segja námsmannahreyfingarnar að tekjutap í skattheimtu dreifist milli ríkis og sveitarfélaga enda deili þau ávinningi af auknum lántökum.

Hæstv. forseti. Þó ég fagni eins og ég sagði áðan því meginmarkmiði að með frumvarpinu sé lækkuð endurgreiðslubyrðin tel ég enn að mat námsmannanna á skattalækkunarleiðinni sé þess eðlis að eðlilegt hefði verið fyrir nefndina að skoða það nánar. Námsmannahreyfingarnar segja aðferðina sem lögð er til í frumvarpinu vera lítið skref í rétta átt en varla mikið meira en það, þó slær enginn hendinni á móti því að endurgreiðslubyrðin sé þó lækkuð.

Þó benda námsmannahreyfingarnar á í greinargerð sinni að hlutfallslækkun um 1% hafi í för með sér lengri endurgreiðslutíma lána sem þýði að einhverjir lánþegar muni greiða af námslánunum jafnvel upp í háa elli og tala þess vegna um að hlutfallsleiðin sé einungis kjarabót fyrir þá sem hafi tekið lánin eftir 1992 en skattaleiðin eigi að koma öllum endurgreiðendum vel.

Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa mikið fleiri orð um þá skattaleið sem námsmannahreyfingarnar hefðu gjarnan viljað sjá að farin yrði. Það sama á við um BHM og gerir BHM vel grein fyrir röksemdum sínum í umsögn til nefndarinnar hvað þetta varðar.

Annan fyrirvara hef ég við frumvarp þetta sem lýtur að 1. gr., b-liðnum. Sú grein fjallar um málskotsréttinn og frestun réttaráhrifa úrskurðar málskotsnefndarinnar. Námsmannahreyfingarnar og BHM hafa ígrunduð rök fyrir því að verið sé að fara út á hæpna braut og ég sé ekki annað en að færð séu sannfærandi rök fyrir því í umsögnum aðilanna til hv. menntamálanefndar. Greinin gerir ráð fyrir að hægt sé, að kröfu stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, að fresta réttaráhrifum úrskurðarmálskotsnefndarinnar og stjórnin geti síðan borið málið undir dómstóla með ákveðnum 30 daga fresti. Í umsögn BHM um þetta atriði segir að málskotsnefndin hafi nú þegar slíka heimild samkvæmt gildandi lögum, sbr. 1. málslið 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. BHM segir því í umsögn sinni að breytingin sé óþörf, enda sé óeðlilegt að mæla sérstaklega fyrir um rétt lægra setts stjórnvalds til slíkrar kröfugerðar gagnvart úrskurðarnefndinni sem á að vera og er sjálfstæð í öllum störfum sínum. Í umsögn BHM segir, að stjórn lánasjóðsins hafi ávallt haft fullkominn rétt og möguleika á hagsmunagæslu gagnvart málskotsnefndinni og yrði slík heimild til að óska frestunar áréttuð í lögum væri eðlilegt að rætt væri um að það væri „málskotsnefndin“ en ekki „hún“ — sem sagt persónufornafnið hún, sem gæti vísað til stjórnarinnar — í 1. málslið b-liðar til að ljóst sé að frestunarvaldið sé hjá málskotsnefndinni en ekki hjá stjórn lánasjóðsins. Lagatæknilega telur því BHM að ekki sé nægilega skýrt að orði kveðið.

BHM telur eðlilegt að setja inn efnisskilyrði við slíkt mat, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sem heimilar þó einungis frestun á því er varðar fordæmisgildi úrskurðarnefndarinnar.

Varðandi málshöfðunarrétt lægra setts stjórnvalds gegn æðra stjórnvaldi telur BHM breytinguna beinlínis óeðlilega og telur að hún gangi gegn þeim meginreglum stjórnsýsluréttar um stigskiptingu stjórnsýsluvaldsins sem ætti að fara eftir í þessu tilfelli. Slíkt telja samtökin, Bandalag háskólamanna, vera algerlega fordæmalaust og telja að benda megi á að ríkisskattstjóri, sem fer með aðild að máli fyrir hönd gjaldkrefjenda samkvæmt áðurnefndum lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, hafi ekki heimild til málshöfðunar til ógildingar á úrskurðum yfirskattanefndar. Það vald hafi eingöngu fjármálaráðherra, skv. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 30/1992. Þess vegna telur BHM eðlilegt að valdið yrði í höndum menntamálaráðherra ef það á annað borð ætti að vera fyrir hendi en alls ekki hjá stjórn lánasjóðsins.

BHM tekur fram í umsögn sinni að það vilji að málskotsrétturinn verði fremur fluttur aftur til menntamálaráðherra, sem ber enda pólitíska og lagalega ábyrgð á málinu samkvæmt stjórnarskránni, í stað þess að veikja sjálfstæði sérfróðrar málskotsnefndar. Auðvitað er málið nokkuð flókið og lagatæknilegs eðlis. Þess vegna hefði ég viljað hafa rýmri tíma til að fara vel yfir málið í nefndinni og óskaði eftir því að við fengjum stjórnsýslufræðing til að gera okkur fulla grein fyrir því hvað hér um ræðir og hvað sé fólgið í breytingunni og á hvern hátt leiðin sem BHM vill fara kæmi út. Það reyndist ekki tími til þess svo ég hef áskilið mér fullan rétt til þess að hafa alla fyrirvara við greinina. Ég tel rétt að taka það fram að ég áskil mér enn þann rétt að flytja breytingartillögu við málið hvað þetta varðar þó það verði ekki gert fyrr en við 3. umr. Þegar nægt tóm og nægur tími hefur gefist til að skilja þetta ofan í kjölinn og sjá hvort verið sé að fara inn á mjög óæskilega braut, eins og ég tel BHM vera búið að rökstyðja mjög vel, kem ég til með að taka ákvörðun um það hvort ég flyt breytingartillögu við málið.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir fyrirvörum mínum sem vörðuðu þessar tvær greinar og læt því máli mínu lokið.