131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[21:08]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Gott og vel. Látum sem að hér sé einungis um þessa fyrstu setningu málsgreinarinnar að ræða, þ.e. þá sem hv. þingmaður gerði að meginefni andsvars síns:

„Að kröfu stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir hönd sjóðsins getur málskotsnefnd frestað réttaráhrifum úrskurðar telji hún ástæðu til þess.“

Þá erum við komin að þessu persónufornafni sem BHM gerir athugasemd við og telur ekki nægilega skýrt að átt sé við málskotsnefndina heldur geti það allt eins vísað til stjórnar lánasjóðsins.

Séu áhöld um slíkt þá ætti það að vera hægur vandi fyrir menntamálanefnd að gera tillögu til úrbóta, bara hvað þetta varðar. Eins og hv. þingmaður túlkar þessa setningu þá er átt við málskotsnefndina með persónufornafninu en ekki stjórn lánasjóðsins. (SKK: Það kemur fram í lögskýringargögnum.) Það kemur fram í lögskýringargögnum, segir hv. þingmaður. Það er gott og vel en ég tel að það hefði verið afar gott fyrir nefndina, þar sem ekki eru allir lögfræðimenntaðir í nefndinni, að fá stjórnsýslusérfræðing til að rýna betur í málið með okkur. En eins og ég segi þá er ég ekki á móti málinu. En þessi grein stendur verulega í mér.

Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi máls míns, að inntakið og hin pólitísku tíðindi í þessu frumvarpi eru nokkuð sem ber að fagna. Prinsippið er þess eðlis. Það er gott að lækka skuli endurgreiðslubyrði námslánanna en þegar við fáum svo alvarlegar ábendingar, sem eru þar að auki nokkuð flóknar fyrir sum okkar a.m.k., tel ég að við þyrftum að hafa rýmri tíma til að fara í saumana á málunum.