131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[21:10]

Frsm. menntmn. (Gunnar Birgisson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur verið farið ágætlega í gegnum b-lið 1. gr. og væri réttast fyrir hv. þingmann að setja sig í spor okkar í stjórn lánasjóðsins ef við fengjum á okkur úrskurði sem valda mundu verulegum fjárútlátum fyrir sjóðinn. Það væri slæmt að þurfa að bera ábyrgð á því án þess að geta nokkuð haft um það að segja. Hv. þingmaður verður að reyna að skilja hvað er þarna á ferðinni.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fór mjög vel í gegnum lagalegar hliðar málsins en hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vitnaði í námsmannahreyfingarnar og BHM, eins og BHM væri stóri sannleikurinn í þessu máli. Námsmannahreyfingarnar voru ekki mjög jákvæðar og sögðu þetta lítið skref í rétta átt. Þetta er auðvitað mjög stórt skref sem hér er stigið.

Aðferðin sem BHM lagði til var sú að fara þessa tekjuskattsleið, þ.e. með afslátt á tekjuskattinn. Skattafsláttaleið BHM kostar alltaf ákveðið mikið, hún kostar 700 millj. kr. og það yrði tekið beint úr ríkissjóði. Það væri gott fyrir sjóðinn og hefði ekkert að segja varðandi fjárstreymi til hans. En þar væru teknar beint úr ríkissjóði 700 millj. kr. Það er tillaga BHM. Við fórum bil beggja í þessu. Það var að breikka stofninn sem við reiknum afborganir af og hins vegar að taka 260–340 millj. kr. úr ríkissjóði. Þannig var þetta gert.

Varðandi stjórnsýslufræðinginn sem um var rætt, sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi, þá hefur verið unnið að því að reyna að fá þann ágæta stjórnsýslufræðing í nefndina, eins og ég lofaði, og vonandi ætti það að geta gengið á föstudagsmorgun.