131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[21:12]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því og þakka hv. formanni menntamálanefndar fyrir að málið skuli verða kallað inn til nefndarinnar aftur milli 2. og 3. umr. og að unnið sé að því að fá stjórnsýslufræðing til að skýra þetta nánar fyrir okkur sem höfum ekki botnað í þessu jafn vel og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson.

Varðandi hitt sem ég sagði, er ég vitnaði til umsagnar námsmannahreyfinganna um að þau teldu þetta lítið skref í rétta átt, þá voru það ekki mín orð, þannig að það sé alveg á hreinu. Hins vegar er það kristaltært að ríkissjóður er ævinlega að fjármagna sjóðinn. Lánasjóður íslenskra námsmanna er fjármagnaður af ríkissjóði. Ég sé því ekki að það skipti sköpum þótt 700 millj. kr. hefðu farið í skattendurgreiðsluleiðina. Ég sé ekki að það skipti sköpum því að ríkissjóður er hvort sem er í ábyrgð fyrir sjóðinn og fjármagnar sjóðinn frá upphafi til enda.

Ég tel, án þess að ég viti það fullkomlega, að það hafi ekki verið fullreynt að ná samkomulagi milli námsmannahreyfinganna og stjórnar lánasjóðsins í þessu máli. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig starfið í nefndinni gekk fyrir sig. Ég veit ekki hvort námsmannahreyfingarnar töldu sig hafa fengið nægan tíma til að vinna málið, til að sannfæra þá sem voru á öndverðum meiði eða hver rök stjórnar lánasjóðsins voru í þessum efnum. Þetta er eitt af því sem við í nefndinni höfðum ekki ráðrúm til að fara nægilega vel í gegnum, hæstv. forseti, að mínu mati.