131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

330. mál
[21:16]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Lánasjóður íslenskra námsmanna er sannarlega alls góðs maklegur. Ég tek undir orð hv. þm. Gunnars Birgissonar að hann er félagslegur jöfnunarsjóður og ríkið hefur staðið vel á bak við sjóðinn og hann er til fyrirmyndar. Um allt þetta erum við sammála, en þá verðum við líka aðeins að horfa í gegnum fingur og hafa skilning á því þegar þarf að breyta lögum um sjóðinn að þá geti verið mismunandi sjónarmið uppi.

Hv. þingmaður sagði í fyrra andsvari sínu að BHM væri ekki einhver stóri sannleikur í málinu. Hv. þingmanni virðist hafa gramist það að námsmannahreyfingarnar skyldu gera sjónarmið BHM að sínum í starfinu í nefndinni.

Gott og vel. Þar voru andstæð sjónarmið á ferðinni og ævinlega þegar andstæð sjónarmið eru um hlutina en samt sem áður sameiginlegt takmark þarf oft að sýna ákveðna kænsku til að komast að sameiginlegri niðurstöðu sem allir verða ánægðir með. Ég vildi óska þess að námsmannahreyfingarnar og BHM sem fólkið sem nýtir sjóðinn og nýtir sér sem stéttarfélag þegar út er komið að stórum hluta, að þetta fólk hefði getað verið sátt við þá leið sem valin er. Sáttara en raun ber vitni. Þó allir segi auðvitað, námsmannahreyfingarnar, BHM, ég og flokksfélagar mínir að verið sé að stíga mikilvægt, jákvætt skref, verður hv. þm. Gunnar Birgisson að skilja að það hafa verið ólík sjónarmið uppi um þetta og menn hafa ekki náð að sætta þau fullkomlega þar sem önnur leið var valin en sú sem hinir hefðu kosið. Eðli málsins samkvæmt er erfitt að ná sameiginlegri lendingu. Það þekkjum við sem störfum í stjórnmálum og ég held að í þessu tilfelli hefði mátt vinna betur í að ná sáttum, en engu að síður fagnar maður lokaniðurstöðunni.