131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[21:47]

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti svokallaðs minni hluta menntamálanefndar um þessi þrjú mál. Við högum því þannig að við höfum í nefndarálitinu um Háskólann á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands, eða frumvarpinu um lagabreytingar um þær stofnanir, einfaldlega vísað til röksemda í frumvarpinu sem fyrst var fyrir, sem er frumvarpið um breytingar á lögum um Háskóla Íslands því að málið er auðvitað hið sama eins og reyndar kom fram í orðum og flutningi hv. þm. Gunnar Birgissonar, formanns menntamálanefndar, áðan.

Forseti. Með því frumvarpi sem hér um ræðir og þeim tveimur öðrum sem ég nefndi er ætlunin að hækka svonefnd skráningargjöld í þessum skólum þremur úr 32.500 kr. í 45 þús. kr. Með því er námsmönnum gert að greiða gjöld til að auka tekjur Háskóla Íslands um 100 millj. kr., Kennaraháskóla Íslands um 24 millj. kr. og Háskólans á Akureyri um 16 millj. kr. Í athugasemdum við hvert frumvarpanna segir, með leyfi forseta: „Ekki er gert ráð fyrir því í forsendum fjárlagafrumvarpsins að innheimta gjaldanna komi til frádráttar fjárveitingum til ríkisháskólanna á fjárlögum.“

Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis segir hins vegar, með leyfi forseta, enn á ný og vonandi í tilvitnunum í allri þessari ræðu sem að sjálfsögðu er að stofni til byggð á nefndarálitinu: „Útgjaldaheimild skólans í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2005 byggist á þeirri forsendu að skólinn nýti sér heimildina og afli 100 millj. kr. meiri tekna sem renni óskertar til hans.“ Hér ræðir um Háskóla Íslands og samsvarandi tala er í umsögnum um önnur frumvörp. Starfsmenn fjármálaráðherra segja því í umsögn sinni, gera ráð fyrir því í umsögn sinni að aðeins hækkunin, 12.500 kr., renni óskert til háskólanna hvað sem líður athugasemdum um frumvarpið. Þarna stangast sem sagt á athugasemdir við frumvarpið frá starfsmönnum menntamálaráðherra, við umsögn starfsmanna fjármálaráðherra. Ég kem að því betur á eftir.

Starfsmaður menntamálaráðherra, Valur Árnason, kom eins og áður segir í ræðu hv. þm. Gunnars Birgissonar á fund menntamálanefndar og sagði þá m.a. að hækkun gjaldsins væri ein af forsendum fjárveitingatillagna í fjárlagafrumvarpinu. Það er ljóst að við áætlun heildartekna skólans og skólanna þriggja, í menntamálaráðuneytinu og í fjármálaráðuneytinu, er gert ráð fyrir þessum auknu tekjum til þeirra. Þær bætast ekki við, hvorki að öllu leyti né einungis hækkunin, eins og um væri að ræða fundið fé eða einhvers konar gjafir. Með frumvörpunum er einfaldlega verið að færa hluta af útgjöldum ríkisins yfir á nemendur skólanna og það eru engar áætlanir uppi um sérstaklega bætta þjónustu samfara þessari gjaldtöku af nemendum. Enda kom það fram á fundum nefndarinnar með rektorum skólanna þriggja að verulega vantar á að fjárveitingar samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005, sem nú er orðið að fjárlögum, nægi skólunum til starfa á komandi ári. Rektor Háskóla Íslands taldi að þar munaði hjá sér um 300–400 millj. kr. Rektor Háskólans á Akureyri nefndi um 100 millj. kr. sem þar vantaði upp á. Rektor Kennaraháskóla Íslands nefndi að sönnu enga upphæð þótt hann teldi að tölur í Kennaraháskóla Íslands væru vanmetnar en hann nefndi að um þúsund nemendum hefði verið vísað frá, verið neitað um skólavist til að hægt væri að halda skólunum innan fjárlagarammans. Til að rétt sé rétt sagði hann einnig að sennilega væri ekki um að ræða að allir þúsund hefðu komist inn í skólann, þótt ljóst væri að meiri hluti þeirra hefði gert það, þannig að ástæðan fyrir því að þeim var vísað frá er ekki að Kennaraháskólinn vilji hafa tiltekinn fjölda inni í skólanum og ekki fleiri, heldur sú að hann fékk hreinlega ekki fjárveitingar til þess að hleypa fleiri nemendum í sitt ágæta nám.

Meðan svona er ástatt um fjárveitingar til ríkisháskólanna þá er fáfengilegt, og í raun og veru tómt mál, að halda því fram að einhverjar upphæðir komi eða komi ekki til frádráttar fjárveitingum til ríkisháskólanna á fjárlögum, eins og það er orðað í athugasemdum með frumvörpunum öllum þremur.

Forseti. Ekki hefur tekist að fá úr því skorið hvers eðlis það gjald er sem í lögum og frumvarpi heitir skráningargjald. Í athugasemdum við frumvarpið um Háskóla Íslands, og hina skólana einnig, er vísað til álits umboðsmanns Alþingis frá árinu 2003 þar sem hann komst einkum að þeirri niðurstöðu að gjaldtakan væri lögmæt. Álitamálið sem hann var beðinn að skera úr var hvort um lögmæta gjaldtöku væri að ræða og hann komst að því að hún væri vissulega lögmæt þar sem Alþingi hefði samþykkt hana, með þeim hætti að ekki væri hægt að efast um það, en í áliti umboðsmanns var hins vegar ekki skorið úr því hvort gjaldið væri skattur eða þjónustugjald og umboðsmaður Alþingis lenti greinilega í vandræðum með þá flokkun.

Nú kynnu menn að halda að það væri deila um keisarans skegg ekki keisarans skatt, sem er annars konar en keisarans skegg þó að stundum fái keisarar með skegg greiddan skatt, hvort álögur af þessu tagi eru þjónustugjöld eða skattar. Allajafna þarf hvort eð er að borga þannig að neytandanum, greiðandanum, skattþegninum má vera andskotans sama. En hér skiptir þetta nokkru máli því að ef um þjónustugjald væri að ræða þá ætti hver og einn sem gjaldið greiðir aðeins að greiða fyrir þá þjónustu sem látin er í té, honum sjálfum er látin í té en ekki einhverjum öðrum, því það er ekki eðli þjónustugjalda. Skattur er hins vegar lagður á samkvæmt allt öðrum grundvallarreglum eins og við vitum sem borgum skatt og hlítum því, sumir með glöðu geði og aðrir með súrum svip eftir grundvallarhugmyndum manna og þeirri ríkisstjórn sem skattinn leggur á hverju sinni, og við borgum hann óháð því hvaða þjónustu ríkisins við erum að nota. Við borgum skatt og sættum okkur við það að hann fari til lögreglu og fangelsismála þótt við þurfum ekki að eiga við lögreglu og séum ekki sett í fangelsi. Við borgum skatt með glöðu geði, eða a.m.k. án þess að efast um réttmæti þeirrar greiðslu, þó að við notfærum okkur t.d. ekki á því ári hina góðu þjónustu í heilbrigðismálum sem hér er rekin eða a.m.k. styrkt af hinu opinbera.

Að gjaldið heitir skráningargjald bendir til þess að hér sé um þjónustugjald að ræða. Það bendir líka til þess að um þjónustugjald sé að ræða að hæstv. menntamálaráðherra hefur í samræmi við það kallað eftir sérstökum skjölum frá háskólunum þremur, nú í fyrsta sinn, um kostnað eins og þar stendur „vegna skrásetningar og tengdrar þjónustu við stúdenta“ í fylgiskjalinu frá Háskóla Íslands, „vegna skráningar og tengdrar þjónustu við nemendur“ í fylgiskjalinu frá Háskólanum frá Akureyri og „vegna skrásetningar og þjónustu við stúdenta“ frá Kennaraháskóla Íslands. Hér eru tilbrigði við stef og er auðvitað notalegt en kannski líka einkennandi fyrir þann anda sem fylgir þessum fylgiskjölum.

Í þessum plöggum, sem menn gætu haldið að væru greinargerð um hvers konar þjónusta er reidd af hendi fyrir þjónustugjaldið, er þó gert ráð fyrir að allir nemendur skólanna borgi sama gjaldið og nýti sér hnífjafnt þá þjónustu sem í boði á að vera og þarna er talin upp, en svo er allajafna ekki um þjónustugjöld.

Forseti. Við höfum nokkuð rætt um skólagjöld síðustu daga og við kynningu þessara þriggja frumvarpa hafa hæstv. menntamálaráðherra og starfsmenn hans í nefndinni og í fjölmiðlum neitað því að hér sé um skólagjöld að ræða. Að sjálfsögðu er ljóst að gjaldið nemur ekki nema litlum hluta þess kostnaðar sem skólarnir hafa af hverjum nemanda sínum, og er því ekki um gjald fyrir skólavist að ræða í þeim skilningi. Hitt er jafnljóst af vandlegri skoðun málsins að gjaldið sem er hið sama í öllum skólunum þremur er ekki miðað við tiltekinn kostnað á skráningu hvers nemanda. Gjaldið hefur fullkomlega óljóst andlag í þjónustu eða verkum sem fyrir það fást, bæði innan hvers skóla og þegar skólarnir eru bornir saman. Það væri auðvitað æskilegt að hæstv. menntamálaráðherra og stjórnendur skólanna, sem ekki er hægt að skilja hér undan enda koma plöggin frá þeim og eru á ábyrgð þeirra, að þetta fólk hygði að og hermdi hið sanna, sem er þetta: Hækkun þessa gjalds um 38,5% núna er ekkert annað en skref í átt að skólagjöldum, hvort sem það skref er stigið vitandi vits eða með bundið fyrir augun.

Því miður eru þessi skjöl um kostnað við skráningu, eða skrásetningu og aðra þjónustu henni tengda, ekki háskólanum til vegsauka. Það kom raunar fram og var viðurkennt á fundi menntamálanefndar með rektorunum að þarna væri margt matskennt, eins og það var orðað. Því ber líklega ekki að taka plöggin af fullri alvöru af hálfu skólastjórnendanna og enn er óljóst, þrátt fyrir að rektorarnir hafi komið á þennan fund með aðstoðarmönnum sínum, í hvers konar alvöru ber að taka þessi plögg. Um þá stöðu er það eitt að segja, að hún er ekki góð.

Það er hins vegar upplýst að menntamálaráðherra óskaði eftir þessum skjölum þegar málið var komið vel á veg. Sú staðreynd er auðvitað athyglisverð í því ljósi að allir semjendur plagganna komust að svipuðum tölulegum niðurstöðum um þennan kostnað, í orði kveðnu hver í sínu lagi, þó að þessir semjendur yrðu svo ekki samhljóða um forsendur útreikningsins eins og ágætlega má sjá þegar menn skoða fylgiskjölin og horfa t.d. á það að í fjölmennasta skólanum, Háskóla Íslands, er þessi kostnaður talinn mestur þar sem ætla mætti fyrir fram að hann væri minnstur. Hann er talinn 48.494 kr. á nemanda en í fámennasta skólanum, Háskólanum á Akureyri, er hann hins vegar nokkru lægri, 45.987 kr. Í Kennaraháskóla Íslands er hann aðeins 45.181 kr. og er þar lægstur í skólanum sem stendur á milli hinna tveggja að nemendafjölda.

Á fundi nefndarinnar með rektorunum kom fram hjá þeim öllum í mismiklum mæli að raunkostnaður skólanna við skráningu og tengda þjónustu sem þarna færi fram væri sennilega nokkru meiri en fram kemur í plöggunum. Út af fyrir sig er það sérkennileg yfirlýsing og sérstaklega í því ljósi að hinir sjálfstæðu útreikningar skólanna þriggja, sem allir teljast akademískar stofnanir og einn af þeim hefur haldið uppi merki akademíu á Íslandi í 93 ár, leiddu til niðurstöðutalna þar sem aðeins munar 3.313 kr., að vísu matskenndum. Það er líka athyglisvert að allar eru upphæðirnar lítið eitt hærri en sú upphæð sem til er lögð í frumvörpunum, 45 þús. kr. á nemanda, og mun hafa verið rætt um frá upphafi þessa máls. Um frekari greiningu á þessum skjölum skólanna má lesa í umsögnum Stúdentaráðs Háskóla Íslands, Stúdentaráðs Kennaraháskóla Íslands og Félags stúdenta við Háskólann á Akureyri, sem eru fylgiskjöl við nefndarálit okkar í hinum svokallaða minni hluta og kannski verða síðar í umræðunni teknir saman úr þeim umsögnum svona heitustu bitarnir eða þær lesnar í heild sinni sem væri mjög vert en umsagnir fulltrúa nemenda um fylgiskjöl stjórnendanna eru vægast sagt afar athyglisverðar.

Forseti. Við 1 umr. um daginn um þessi þrjú frumvörp og í störfum nefndarinnar sem hafði þó ákaflega stuttan tíma hefur eftir megni verið reynt að grafast fyrir um rætur þessa máls, einkum sökum þess að í athugasemdum við frumvörpin er hækkunartillagan úr 32.500 kr. í 45 þús. kr. sögð „í samræmi við óskir ríkisháskólanna“. Niðurstaðan af þessum tilraunum er sú að upphaf málsins virðist að rekja til rektors Háskóla Íslands í sambandi, virðist vera, við hæstv. menntamálaráðherra í ársbyrjun og kann þó að vera hægt að rekja það til síðasta árs að nokkru innan háskólans. Voru nefnd nöfn í því sambandi sem ég ætla að hlífa mönnum við, bæði okkur og þeim, að fara með hér. Þá mun, eins og ég sagði áðan, strax hafa verið rætt um 45 þús. kr. en athyglisvert má telja að ef sú upphæð er margfölduð með áætluðum nemendafjölda nemur hún nákvæmlega 100 millj. kr. Ekki 99 millj., ekki 103 millj., ekki 96,5 millj., tölur sem við þekkjum úr raunútreikningum fjárlaga eða reikninga fyrirtækja eða stofnana, heldur 100 millj. kr. samkvæmt mati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem fram kemur í frumvarpinu um Háskóla Íslands. Þessi ráðagerð virðist síðan hafa borist til eyrna hinum rektorunum tveimur, öðrum þeirra á fundi rektoranna þriggja en hinum að frumkvæði hæstv. menntamálaráðherra eða starfsmanna hans. Þannig virðist þetta hafa gerst og þess vegna virðist nokkuð ofmælt að tala um óskir ríkisháskólanna í fleirtölu í þessu sambandi. Það er raunar erfitt að skilja aðdraganda þessa máls öðruvísi en svo að hæstv. menntamálaráðherra hafi gert þessa hækkun gjalda á námsmenn að skilyrði í viðræðum sínum við stjórnendur háskólanna þriggja um fjárveitingar fyrir 2005, óháð því hvar hugmyndin um töluna eða þessa aðferð kviknaði í upphafi.

Hækkun hinna svokölluðu skráningargjalda samkvæmt frumvörpunum þremur nemur eins og áður er sagt 100 millj. kr. í Háskóla Íslands, 24 millj. kr. í Kennaraháskóla Íslands og 16 millj. kr. í Háskólanum á Akureyri. Samtals eru þetta um 140 millj. kr. sem ríkisstjórnin hyggst afla frá námsmönnum við ríkisháskólana á næsta ári á sama tíma og í gildi ganga skattkerfisbreytingar sem einkum hagnast hátekjumönnum. Þessi hækkun nemur 12.500 kr. á hvern nemanda fyrir hvert skólaár og það er auðvitað athyglisvert að í kynningu frumvarpanna hefur komið fram að ekki er gert ráð fyrir því að Lánasjóður íslenskra námsmanna, blessaður, sem hér var rætt um áðan, láni fyrir þessum svokölluðu skráningargjöldum. Upphæð láns frá lánasjóðnum minnkar eins og við vitum við auknar tekjur námsmanns. Þess vegna er ljóst að í mörgum tilvikum er um að ræða hreina skerðingu á ráðstöfunarfé námsmanna. Þegar við tökum saman pakkann, allar tekjur sem námsmaðurinn hefur á árinu, bæði frá lánasjóðnum og þær tekjur sem hann vinnur sér inn sjálfur, getur hann ekki unnið sér inn þær tekjur með því að fara einhverja helgi eða nokkrar helgar og reynt að afla sér þessa fjár vegna þess að það yrði dregið frá námsupphæðinni. Þannig er þetta bein skerðing á ráðstöfunartekjum námsmanns, hvers og eins sem við þetta þarf að búa.

Rétt er að taka það fram fyrir þá sem ekki vita í salnum að óskert lán frá lánasjóðnum til einstaklings í leiguhúsnæði nemur nú 79.500 kr. á mánuði. Ef ekki er annað fé fyrir hendi, t.d. gjafir eða þá að námsmaðurinn finni gimstein á götu sinni í bænum eða annars staðar á landinu, til að greiða skrásetningargjaldið verða eftir 47.500 kr. fyrsta mánuðinn miðað við upphæðina sem nú er í gildi. Ef við lendum í þeirri ógæfu að samþykkja þessi frumvörp verður þessi upphæð á næsta ári 34.500 kr. fyrsta mánuðinn sem námsmaðurinn er í námi. Þessar tölur sýna ágætlega áhrifin af gjaldheimtunni sem hér stendur til og þeirri sem nú er í gildi á fjárhag nemenda og það verður að taka það fram að minni hlutinn telur að hvort sem þessi frumvörp verða samþykkt eða ekki eigi að endurskoða þessar reglur sjóðsins þannig að hin svonefndu skráningargjöld verði metin sem hluti framfærslugrunns. Það eykur enn kröfuna á þetta að þeir sem standa fyrir gjaldheimtunni treysta sér ekki til þess eins og áður er sagt að segja til um fyrir hverju þessi svokölluðu skráningargjöld eiga að duga. Í raun verður að ætla að skráningargjöldin séu öðrum þræði hrein skólagjöld þar sem ekki er með neinum hætti afmarkað fyrir hvað námsmennirnir eru að borga með þeim og hver á að vera þáttur skólans eða eiganda hans, almannavaldsins.

Þess skal getið, forseti, að menntamálanefnd á enn eftir að fá gögn, annars vegar um hlut háskólaráðs Háskóla Íslands að þessu máli sem ég hef ekki rætt vegna gagnaskortsins og hins vegar um misræmi milli umsagnar fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og athugasemda í frumvarpinu um meintan frádrátt á fjárveitingu til háskólanna sem ég minntist á í upphafi máls míns.

Minni hlutinn taldi á fundi sem haldinn var í gærmorgun að frumvörpin væru þess vegna vanbúin til þessarar umræðu án þess að gögnin lægju fyrir og lagðist gegn því að málin yrðu afgreidd úr nefndinni við svo búið. Sjálfsagt er að eftir þessa umræðu verði málin kölluð aftur inn til nefndarinnar svo gefist færi á að fara yfir þessi gögn. Ég vona að formaður menntamálanefndar, hv. þm. Gunnar Birgisson, fallist á þá kröfu sem hann hlýtur að gera hvernig sem hann hagar sér að öðru leyti í þessu máli og hver sem forsagan er við umfjöllun þess í nefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða minni hlutans í nefndaráliti sínu er sú að hann telur enga ástæðu nú til að hækka þessi gjöld á nemendur við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands og leggst því gegn samþykkt frumvarpsins.

Undir nefndarálitið sem ég er að kynna skrifa Björgvin G. Sigurðsson, Kolbrún Halldórsdóttir og Mörður Árnason. Steinunn K. Pétursdóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkt áliti þessu. Katrín Júlíusdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Ég vil aðeins bæta við sem framsögumaður fyrir nefndaráliti minni hlutans að við vorum auðvitað að ganga frá þessu í dag og voru þá komin fram áður en það fór í lokagerð þrjú nefndarálit frá meiri hluta menntamálanefndar. Þess vegna þykir rétt að kalla þetta nefndarálit frá minni hluta menntamálanefndar.

Undir álit meiri hluta menntamálanefndar rita, eins og hv. þm. Gunnar Birgisson rakti áðan í ræðu, Gunnar Birgisson, Dagný Jónsdóttir, Birkir J. Jónsson, Kjartan Ólafsson og Sigurður Kári Kristjánsson.

Það kemur satt að segja á óvart að þau fimm skuli rita undir þetta álit vegna þess að einn nefndarmanna, hv. þm. Dagný Jónsdóttir, hefur lýst því yfir opinberlega í fjölmiðlum að hún hyggist sitja hjá við afgreiðslu þessa máls. Hún tilfærir sjálf ástæðurnar fyrir því á eftir, sé hún enn þessarar skoðunar, en af þeim skjölum sem nú eru út gengin í máli þessu verður að draga þá ályktun að hún hafi skipt um skoðun í þessu efni og ætli nú ekki lengur að sitja hjá við afgreiðslu málsins, heldur ætli hún að samþykkja það á einhverjum forsendum. Ég lýsi eftir því, og vek athygli á því að hægt er að fara í andsvör og svara því strax þannig að það sé á hreinu, á hvaða forsendum hv. þm. Dagný Jónsdóttir hefur skipt um skoðun í málinu. Af hverju hún segist einn daginn ætla að sitja hjá við afgreiðslu þess og annan daginn er hún komin, að vísu með fyrirvara, á nefndarálit þar sem niðurstaðan er sú að lagt er til að frumvarpið verði samþykkt. Með leyfi forseta, beint upp úr nefndaráliti meiri hluta menntamálanefndar svokallaðs, um Háskóla Íslands.:

„Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu“ — og svo kemur breytingin.

Er það breytingartillaga meiri hlutans sem veldur því að hv. þm. hefur skipt um skoðun? Getur það verið? Mér sýnist þessi breyting, en ég er náttúrlega nýliði á þingi, vera um orðfæri, um orðalag. Er það eitthvað annað? Er það eitthvað sem komið hefur fram í umfjöllun nefndarinnar, t.d. umsagnir nemenda við Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskólann á Akureyri, álit Stúdentaráðs Háskóla Íslands þar sem hv. þm. starfaði fyrir nokkrum missirum og var þá sem starfsmaður og stúdent í baráttu gegn gjaldtöku af þessu tagi? Eru það þær umsagnir og það álit sem hefur fengið hana til að skipta um skoðun í þessu efni? Eða getur það verið, forseti, að það sé þannig að þingmenn geti í nefndum skrifað undir eitthvað með fyrirvara og fyrirvarinn varði aðalatriði máls? Því það er aðalatriði málsins í þessu nefndaráliti að meiri hluti nefndarinnar, þeir fimm sem hér um ræðir og þar á meðal hv. þm. Dagný Jónsdóttir, leggur til að frumvarpið verði samþykkt. Getur það verið að þingmaður sem ekki ætlar að samþykkja frumvarp leggi til í nefndaráliti að það verði samþykkt en hafi svo þann fyrirvara að hann ætli að sitja hjá um frumvarpið? Ef það er þá eru þingstörfin flóknari og margvíslegri en ég hélt og hef ég þó upplifað ýmislegt á þeim skamma tíma sem liðinn er síðan ég kom á þingið.

Ég óska eftir því ef Dagný Jónsdóttir staðfestir ekki það hald mitt að hún hafi skipt um skoðun og ætli að styðja málið, ætli að hlíta sinni eigin áskorun um að frumvarpið verði samþykkt, ef það er ekki svo fer ég fram á að forseti skýri það fyrir okkur hvernig hægt er að skrifa undir nefndarálit þar sem lagt er til að frumvarp verði samþykkt með þeim fyrirvara að þingmaðurinn ætli ekki að samþykkja frumvarpið. Þetta er fyrir mér fullkomlega dæmalaust og af því að þetta varðar beinlínis það form sem er á málinu óska ég eftir að úr því verði skorið undir eins því að hið eðlilega hefði verið, miðað við yfirlýsingar hv. þingmanns, að fram hefðu komið í raun og veru þrjú álit, álit 1. minni hluta menntamálanefndar, álit 2. minni hluta menntamálanefndar, þar sem væru fjórir í hvorum hópi eða þrír ef einhver væri forfallaður, og síðan álit 3. minni hluta menntamálanefndar, hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur, sem lýst hefur því yfir að hún ætli að sitja hjá um frumvarpið og ekki samþykkja það eins og þó stendur í nefndarálitinu.