131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[22:19]

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég kann hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni innilegar þakkir fyrir að lesa fyrir okkur einmitt þá skilgreiningu þjónustugjalda sem ég vísaði til í máli mínu. Ég er sammála þessum texta frá upphafi til enda. Ég var einmitt að vekja athygli á því að hér er ekki um að ræða þjónustugjald. Þetta skráningargjald getur ekki talist vera þjónustugjald í þessum skilningi.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að allir nemendur notfæri sér þá þjónustu sem í boði er en um það þarf ekki að vera að ræða. Það getur hv. þingmaður séð ef hann skoðar fylgiskjöl með frumvörpunum. Í öðru lagi er andlag þjónustugjaldsins ekki skilgreint. Það er ekki skilgreint í þessum lagapakka hvert hið raunverulega andlag þjónustugjaldsins er enda eru — og það skal þá hv. þingmaður reyna að afsanna — þessir útreikningar nauðaómerkilegir. Það er búið að finna 45 þús. kr. , byrjað á að finna niðurstöðu dæmisins og síðan er reiknað upp í þessa niðurstöðu þangað til menn eru nokkurn veginn komnir á þann leiðarenda sem menn ætluðu sér.

Hér er hvorki um þjónustugjald að ræða né skattlagningu af neinu tagi. En þetta er auðvitað skref í átt að því háa marki hv. þingmanns og flokksbræðra hans að koma á skólagjöldum um allt skólakerfið.