131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[22:21]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú komu fram athyglisverðar kenningar um að gjaldið sem hér um ræðir sé hvorki þjónustugjald né skattur. Það hefur verið þannig, hygg ég, frá því að ríkisvaldi var komið á, a.m.k. nútímalegu ríkisvaldi, að tekjuöflun ríkisins styddist við tvo megintekjustofna. Þar er annars vegar skattur og hins vegar þjónustugjöld. Menn verða að átta sig á því að þegar til slíkrar gjaldtöku kemur er annaðhvort um skatt að ræða eða þjónustugjald. Menn geta ekki komið upp í ræðustól og haldið því fram að með þessari gjaldtöku hafi menn fundið upp þriðju tekjuöflunarleiðina fyrir ríkissjóð. (Gripið fram í.) Þetta eru þjónustugjöld, hv. þingmaður, í skilningi laganna. Það er algerlega ljóst.

Hv. þingmaður heldur því fram að andlag gjaldtökunnar sé ekki ljóst. Ég bendi hv. þingmanni á það að lesa frumvarpið. Það er talið upp í 10 eða 11 liðum hvert er andlag gjaldsins. Það liggur ljósar fyrir núna en nokkurn tímann áður varðandi þessa gjaldtöku.

Mér finnst einnig mjög athyglisvert að heyra hv. þingmann andmæla töku skólagjalda. Honum líst ekki á skólagjöld og sakar okkur sjálfstæðismenn um að reyna að fara bakdyramegin að stúdentum við Háskóla Íslands við innheimtu skólagjalda.

Ég er með ágætar tillögur framtíðarhóps Samfylkingarinnar um rekstrarform í almannaþjónustu, sem hv. þingmenn Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir, þingmenn Samfylkingarinnar, skrifa undir. Þar er einmitt kafli um skólagjöld. Þar kemur fram stefna Samfylkingarinnar og hún er reyndar skýrari en stefna Sjálfstæðisflokksins varðandi töku skólagjalda.

Það er stefna Samfylkingarinnar í menntamálum, eins og það kemur fram í tillögum umræðuhópsins, að taka skólagjöld af háskólanemum.