131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[22:34]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hv. þm. Kristján L. Möller talar um landsfund þá passar það ekki við minn flokk. Við höldum aldrei slíka fundi þannig að verið getur að þetta sé frá einhverjum öðrum flokki. En ályktunin er samhljóma ályktun Framsóknarflokksins. Ég vil taka fram að ég held að það sé bara ágætt að það sé tekið fram í ályktunum að vilja ekki skólagjöld í grunnskólum svo það sé bara skothelt.

Ég kannast vel við þessa ályktun. Hún var samþykkt á síðasta flokksþingi og hefur verið í gildi fram til þessa. Ég vil þó geta þess að innan Framsóknarflokksins starfar hópur um menntamál og þar er verið að ræða ýmsa hluti varðandi menntastefnu eins og gerist og gengur held ég í flestum stjórnmálaflokkum. Þar eru menn að ræða ýmis mál, m.a. mál sem við ræðum í kvöld og sumir vilja kalla skólagjöld. Ég vil nú ekki skilgreina þetta sem skólagjöld og held ég mig við þá skilgreiningu mína að á meðan ekki er verið að greiða niður kennslu þá er ekki um skólagjöld að ræða.