131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[22:35]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við pólitíkusar höfum mikinn áhuga á öllu pólitísku starfi og þess vegna fylgjast menn með flokksþingum. Ég þakka hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur fyrir að kannast við þessa ályktun. En getur verið, virðulegi forseti, að hv. þingmaður kannist líka við að á þessum landsfundi hafi verið reynt með breytingartillögu að koma að tillögu um viðaukann í grunnnámi þannig að tillagan hljóðaði svo: Almenn skólagjöld verði ekki tekin upp í grunnskólum og framhaldsskólum né heldur í ríkisreknum háskólum né í grunnnámi í ríkisreknum háskólum.

Andstaða við þessa breytingartillögu var mjög mikil á landsfundinum, á flokksþinginu, og einn ákveðinn þingfulltrúi sem jafnframt er þingmaður lagði til með dagskrártillögu að þessari tillögu yrði vísað frá. Getur verið, virðulegi forseti, að þessi hv. þingmaður heiti Dagný Jónsdóttir? Þess vegna spyr maður: Hvað veldur þessum sinnaskiptum nú þrátt fyrir að ætla ekki að greiða atkvæði með, að ljá máls á að hleypa þessu hér í gegn, sitja hjá og ætla þá öðrum að taka þessa ákvörðun.