131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[23:24]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Hér hefur verið farið ágætlega yfir það mál sem er til umræðu af hv. þingmönnum Merði Árnasyni, Kolbrúnu Halldórsdóttur og Steinunni K. Pétursdóttur. Einnig hafa að sjálfsögðu hv. þingmenn meirihlutans mælt, Gunnar Birgisson og Dagný Jónsdóttir, hver með sína afstöðu.

Það sem stendur upp úr í málinu er að verið er að taka skref í átt að skólagjöldum á grunnnám í ríkisháskólunum. Umræðan teygir sig á þessu haustþingi og í kvöld yfir þrjú mál. Við ræddum fyrr í kvöld málefni Lánasjóðs íslenskra námsmanna þar sem sá sem hér stendur spurði hv. formann menntamálanefndar ítrekað að því hvort rætt hefði verið sérstaklega að sjóðurinn kæmi í svo auknum mæli að fjármögnun háskólastigsins með því að einkavæða eina námsgrein sérstaklega, tæknifræðina, og leggja hana í einkarekinn skóla, innheimta þar há skólagjöld sem lánasjóðnum er ætlað að fjármagna. Við því komu engin svör.

Við erum einnig með mál þar sem eru skólagjöld við ríkisháskólana, sem eru kölluð skráningargjöld eða innritunargjöld, einhvers staðar stóð að þau væru einungis uppfærð til að standa undir raunkostnaði við skráningu, sem er fjarri öllu lagi og hefur verið rakið mjög ítarlega hve vanbúið og undarlegt málið er. Skilgreiningin sem stuðst er við frá því að þetta varð fyrst að lögum um hvað eru skólagjöld, hvað eru innritunargjöld o.s.frv., skiptir engu máli. Hvort gjaldinu sé ætlað að standa að einhverju leyti undir kennslu eða ekki, hvort það eitt séu skólagjöld, er skilgreining sem skiptir engu máli, hún er úrelt ef hún var einhvern tímann í gildi.

Það má líka færa rök fyrir því að gjaldið eigi að einhverju leyti að standa undir prófagjaldi. Það er tilnefnt hjá einum skólanum. Þá hefur verið rakið mjög vandlega, í álitum frá stúdentaráði Háskóla Íslands, nemendafélagi Kennaraháskóla Íslands og fleirum hve skringilega er staðið að því að finna gjaldið. Það hefur komið í ljós í meðförum nefndar og þings í málinu að upphæðin var fengin fyrst, síðan voru forsendurnar dregnar fram og búnar til hverjar í sínum skóla. Allir komust að sömu niðurstöðu og sama gjaldi. Hér er því um ákveðinn skrípaleik að ræða sem er engum til framdráttar. Menn eiga að koma að hlutunum með réttum hætti og ekki fara í kringum málin og er það rakið prýðilega í áliti okkar í minnihluta menntamálanefndar sem hv. þm. Mörður Árnason flutti.

Ég spurði sérstaklega forustumenn stúdentaráðs Háskóla Íslands hvort niðurstaða þeirra væri, hafandi farið í gegnum ítarlegt álit þeirra, að hér væri um almenna tekjuöflun fyrir ríkisháskólana að ræða en ekki gjald sem ætti að standa undir afmörkuðum þáttum í þjónustu við stúdenta sem eru tilgreindir með mjög svo ólíkum hætti í skólunum þremur, hvort þetta væru skattar á röngum forsendum, almenn tekjuöflun. Svarið við því var já, mjög afdráttarlaust. Það var niðurstaða stúdentaráðs Háskóla Íslands að svo væri, svo og annarra sem hafa veitt álit. Hægt er að nefna marga fleiri til sögunnar því máli til stuðnings, til að mynda gefur Alþýðusamband Íslands álit sitt umbeðið. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Alþýðusamband Íslands telur að með þessum frumvörpum sé stigið enn eitt skref í þá átt að tekin verði upp skólagjöld við ríkisháskóla hér á landi. Alþýðusamband Íslands lýsir sig ósammála þessari þróun og varar við afleiðingum hennar.“

Virðulegi forseti. Þetta er kjarni málsins. Til lengri tíma litið snýst stóra málið ekki um það hvort skráningargjöldin svokölluðu séu hækkuð um 38,5%, eins og hér um ræðir, eða ekki, hvort skráningargjaldið, staðfestingargjaldið, innritunargjaldið, hvað sem menn vilja kalla þetta sé 35 þús., 40 þús. eða 45 þús. Það eru afleiðingarnar sem skipta mestu máli, þau skref sem stigin eru. Hér er stigið stórt skref í átt að innheimtu skólagjalda við ríkisháskólana. Þetta er þáttur í þróun sem hefur færst verulega í aukana á þeim næstum 12 mánuðum sem liðnir eru frá því að nýr hæstv. menntamálaráðherra tók við lyklavöldum í ráðuneytinu og hefur stundum verið kallað skólagjaldavæðing Sjálfstæðisflokksins í ríkisháskólunum. Þetta er einfaldlega hluti af þeirri þróun. Hæstv. ráðherra lýsti því á sínum allra fyrstu dögum í embætti og áður en hún tók við að hún sæi fátt því til fyrirstöðu að háskólastigið og ríkisháskólarnir væru fjármagnaðir í auknum mæli á kostnað nemenda með innheimtu skólagjalda á grunnnám þeirra.

Í kjölfar þessa fór af stað töluverð umræða um málið á Alþingi og annars staðar. Ráðherra dró í land og hefur sagt oftar en einu sinni síðan þá að hún hyggist ekki og ætli alls ekki beita sér fyrir því að tekin verði upp skólagjöld á grunnnám við ríkisháskólana. Hún sneri við í því máli eftir gagnrýna umræðu sem fór fram bæði hér og annars staðar. Ef það hefðu verið lyktir málsins þá hefði það verið hið besta mál, enda telur sá sem hér stendur að það eigi ekki að innheimta skólagjöld á grunnnám í ríkisháskólunum.

Öðru máli getur gegnt um ýmsar tegundir af framhaldsnámi o.s.frv., að uppfylltum ákveðnum og öðrum skilyrðum. Við höfum ítrekað óskað eftir því og lýst eindregnum vilja okkar til að fara í vandaða umræðu um skólagjöld og almennt um fjármögnun háskólastigsins.

Það hefur hins vegar ekki verið gert. Sjálfstæðisflokkurinn er á harðaflótta í því máli eins og í mörgum viðkvæmum málum sem á þarf að taka. Flokkurinn hefur hvorki þrótt né pólitískt þrek til að leiða þau mál til lykta, sem með einhverjum hætti þvælast fyrir ákveðnum forustumönnum flokksins. Það gildir m.a. um skólagjöldin að Sjálfstæðisflokkurinn segir eitt en gerir annað. Það er ein alversta birtingarmynd stjórnmálanna, þ.e. þegar stóri flokkurinn í þessu stjórnarsamstarfi segir eitt en gerir annað.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur sagt það skýrt að ekki eigi að taka upp skólagjöld á grunnnám í ríkisháskólunum. Á nákvæmlega sama tíma gerist tvennt:

Leggja á niður tækninám í ríkisháskóla og færa inn í einkarekinn skóla sem á að vera einkahlutafélag. Ekki verður hægt að stunda tækninám á Íslandi nema gegn háum skólagjöldum. Á sama tíma lýsir ráðherra því yfir að Lánasjóður íslenskra námsmanna eigi að standa undir þeim kostnaði, það hefur hins vegar aldrei verið rætt.

Seinna atriðið er að skólagjöld, innritunargjöld eða hvað sem þetta er kallað, í ríkisháskólana þrjá voru hækkuð um 40%. Eiginlega álíta allir nema þingmenn Sjálfstæðisflokksins að þar sé um skólagjöld að ræða. Meira að segja lykilmaður Framsóknarflokksins í menntamálanefnd, hv. þm. Dagný Jónsdóttir, ætlar ekki að greiða atkvæði með hækkun skólagjaldanna. Hún treystir sér ekki til þess og styður málið ekki. Eftir stendur Sjálfstæðisflokkurinn með fjallabaksleiðina sína í farangrinum, að taka upp skólagjöld á grunnnám í ríkisháskólum á Íslandi án þess að hafa nokkurn tímann rætt málið eða tekið upp með öðrum hætti, aldrei nokkurn tímann.

Hæstv. menntamálaráðherra hefur að vísu hafnað því eindregið að hún ætli eða vilji taka upp skólagjöld á grunnnám í ríkisháskólum. Hins vegar hafa einstakir þingmenn eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, m.a. í umræðum í fyrradag, lýst því yfir að hans persónulega skoðun sé að innheimta eigi skólagjöld á grunnnám. Gott og vel. Það er að sjálfsögðu hið besta mál að menn opinberi skoðanir sínar og berjist fyrir þeim. Það er hins vegar ekki stefna Sjálfstæðisflokksins að svo verði.

Sjálfstæðisflokkurinn stendur hins vegar að því að taka upp skólagjöld. Núna verður ekki hægt að stunda tækninám á Íslandi nema gegn háum skólagjöldum og stigin eru stór skref í átt að upptöku skólagjalda við ríkisháskólana í þeim þremur frumvörpum sem við ræðum saman um í kvöld, 40% hækkun á skráningargjöldum. Forsendurnar voru búnar til eftir pöntun og gjaldið ákveðið áður en forsendurnar voru teknar saman, enda eru forsendurnar ólíkar á milli skóla. Upphæðin var ákveðin áður en kostnaðarliðirnir voru teknir saman. Það kemur að sjálfsögðu niður á öðrum framlögum til skólanna. Gjöldin eru höfð til grundvallar við að ákveða hvaða upphæðum þeim skuli skammtað í fjárlögum. Þetta er að sjálfsögðu dregið frá þótt svo sé ekki gert með opnum hætti.

Þetta mál er allt hið versta og ekki til sóma þeim sem það flytja. Ef menn vilja innheimta skólagjöld á grunnnám í ríkisháskólunum þá skulu menn segja það og slást fyrir því, taka þá umræðu með hreinskiptum hætti og koma til dyranna eins og þeir eru klæddir. Þeir eiga ekki að fara fjallabaksleið að þessu máli né öðrum. Það er þeim til smánar.

Fleiri gáfu nefndinni álit. Þau álit sem bárust inn voru býsna afdráttarlaus. BÍSN, Bandalag íslenskra námsmanna, segir, með leyfi forseta:

„Við teljum ekki rétt að auka tekjur háskólanna með því að hækka skrásetningargjöld. Ráðlagt væri að hækka ríkisframlög …“

Síðar segir:

„Í ljósi þess að hvorki er gert ráð fyrir skrásetningargjöldum né framfærslugrunni LÍN né sé lánað sérstaklega fyrir gjöldunum mun hækkun skráningargjalda einungis auka kostnað námsmanna sem nú þegar hafa lítil fjárráð ...“

BSRB hafnar þessu afdráttarlaust, Iðnnemasambandið, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og fleiri. Síðan komu mjög vönduð og ítarleg álit frá stúdentaráði Háskóla Íslands sem og frá stúdentum við Kennaraháskólann. Þeir mótmæla harðlega þessari hækkun og benda á að með aukinni tækni, eins og stúdentaráð benti á líka, ætti kostnaður við skráningu stúdenta að lækka. Því er haldið fram að gjaldið eigi að standa undir raunkostnaði við skráningu. Með aukinni tækni hefur kostnaður við skráningu stúdenta lækkað umtalsvert.

Í áliti sínu segja þeir síðan, sem er kjarni málsins, með leyfi forseta:

„Áætlanir um hækkun skrásetningargjalda grafa undan megingildum norrænnar menningar um gjaldfrjálsa almenningsmenntun og þar með velferðarkerfinu öllu. Stúdentaráð Kennaraháskóla Íslands hvetur menntamálanefnd til að hugleiða niðurrif slíkrar hækkunar til langframa.“

Menn koma aftur að afleiðingunum til langframa. Þær skipta að sjálfsögðu langmestu máli. Hér er stigið skref í átt til aukinnar gjaldtöku af stúdentum og að því miðað að stúdentar standi í verulegum mæli undir grunnnámi á háskólastigi við ríkisháskólana. Síðan er Lánasjóðnum ætlað að lána fyrir útgjöldum þeirra þótt reiknað hafi verið út að ef svo væri almennt þá mundi kostnaður ríkisins einungis aukast, það væri jafnvel hagkvæmara fyrir ríkið að auka bein framlög til skólanna.

Hér hafa menn staðhæft að málið sé í samræmi við óskir ríkisháskólanna. Það er mjög vafasöm nálgun. Menn hafa spurt: Hvar eru mörkin? Væri hægt að grípa til einhvers konar staðfestingargjalds. Rektor Háskóla Íslands, Páll Skúlason, nefndi þegar hann kom fyrir nefndina að til væru þrenns konar gjaldtökuleiðir. Þar væru innritunargjöld vegna ýmissar þjónustu. Skólagjöld, hrein og bein, sem stæðu undir rekstri skóla að verulegu leyti og hins vegar hóflegt staðfestingargjald. Það er allt annað mál, að innheimta hóflegt staðfestingargjald til að stemma stigu við óábyrgum skráningum og koma í veg fyrir að fólk sé að skrá sig án þess að á bak við það standi meining. Það er allt annað mál en veruleg gjaldtaka eins og hér um ræðir. Páll Skúlason klykkti út með því að segja að skólagjöld væru ekki lausn á fjárhagsvanda Háskóla Íslands. Undir það taka að sjálfsögðu flestir.

Almennt harma ég það að Sjálfstæðisflokkurinn sé að smygla að því laumumáli sínu að innheimt verði veruleg gjöld í grunnnámi háskólanna. Ég harma að sá flokkur sem eitt sinn bar höfuð og herðar yfir aðra í íslenskum stjórnmálum — sá tími er löngu liðinn, drottni sé lof fyrir það og íslenskum kjósendum að sjálfsögðu og íslenskum jafnaðarmönnum — ætlar að láta það verða eitt af sínum síðustu verkum áður en hann verður hrakinn frá völdum í næstu kosningum að innleiða há skólagjöld á grunnnám í ríkisháskólunum. Það er mikið óhæfuverk að mínu mati, sérstaklega þegar þannig er staðið að málum.

Það væri annað ef flokkurinn nálgaðist málið í opinni og hreinskiptri umræðu og segðist ætla að innleiða og fjármagna grunnnám á háskólastigi að verulegu leyti með gjaldtöku af nemendum. Það væri allt annað mál og sú umræða yrði tekin á þeim grundvelli. Flokkurinn hefur aftur á móti ekki pólitískt þrek til að fjalla eðlilega um málið og fer því í þennan feluleik, þessa fjallabaksleið í staðinn. Þeir hefðu getað stofnað einhvers konar framtíðarhóp í sínum röðum þar sem kostir og gallar ýmissa rekstrarforma á háskólastigi væru skoðaðir. Ætla menn að láta skólagjöld standa undir rekstri háskóla í auknum mæli? Ætla menn að lána fyrir því á móti til að jafna aðstöðuna eða hvernig ætla menn að gera þetta? Á síðan að tengja afborganir af námslánum við tekjur manna eftir nám, að þær verði bókstaflega tengdar við ævitekjur manna eins og gert er hjá Bretum?

Ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði framtíðarhóp á sínum snærum í slíkri vinnu væri kannski hægt að ræða þetta mál með allt öðrum hætti. En hann er ekki að því. (Gripið fram í.) Hér fyrr á tíð komu mikil rit frá vonarstjörnu sjálfstæðismanna um að leggja niður báknið og berjast fyrir öðruvísi samfélagi. (MÁ: Ganga í Evrópusambandið.) Já, ganga átti í Evrópusambandið. Það var niðurstaða sem hæstv. núverandi utanríkisráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra komst að með mjög afdráttarlausum hætti í einu rita sinna. Gaman væri að heyra viðhorf sporgöngumanna hans af yngri kynslóð, t.d. hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar sem er í salnum til þeirra mála. En ég veit að hann ætlar að ræða skólagjöld og viðhorf sín til skólagjalda hér á eftir.

Málið sem hér liggur fyrir, þessi 40% hækkun á skólagjöldum í ríkisháskólana, er verulega gagnrýnisvert mál. Gjaldtakan er á röngum forsendum, ein af fjölmörgum skattahækkunum ríkisstjórnarinnar á þessu hausti. Um leið og þeir segjast lækka skatta um 4–5 milljarða kr. er í raun verið að hækka skatta um 8 milljarða kr. á móti. Það er einn skrípaleikurinn sem hefur verið afhjúpaður með mjög dramatískum hætti á undanförnum dögum, vikum og jafnvel mánuðum. Fátt verður þeim til gæfu, blessuðum, á síðustu missirum sínum í ríkisstjórnarsamstarfinu ef spá mín reynist rétt.

Ég vona að Framsóknarflokkurinn beri gæfu til að standa undir nafni. Hann hefur afdráttarlaust hafnað skólagjöldum, bæði í grunnnámi og framhaldsnámi á háskólastigi í flokkssamþykktum sínum frá upphafi vega, að ég held. Hann hefur ítrekað það afdráttarlaust á flokksþingi Framsóknarflokksins í fyrra. Hv. þingmenn Dagný Jónsdóttir og Kristinn H. Gunnarsson hafa lýst því að þau hafi miklar efasemdir um málið og vilji standa við fyrri samþykktir flokksins.

Menn verða að vona að Framsóknarflokkurinn standi við stóru orðin, stöðvi þetta mál í þinginu og komi í veg fyrir að skólagjöld á grunnnám við ríkisháskólana verði hækkuð um 40% eins og í stefnir. Ég tel að undir niðri leynist andstaða við þetta mál hjá mörgum fleiri þingmönnum flokksins en ég hef nefnt. Ég hygg að það komi fram á næstunni að þeir ætli ekki að standa með Sjálfstæðisflokknum í feluleik við að hækka skólagjöld. Sjálfstæðisflokkurinn ætti að berjast fyrir slíkum áformum, skipa framtíðarhóp til að fjalla um málið, leggja skólagjaldapólitík sína fyrir þingið og berjast fyrir henni en ekki að innleiða hana á röngum forsendum, á forsendum skráningargjalda sem eru ekki skráningargjöld heldur skólagjöld. Í öðru lagi ætla þeir að leggja niður heilu fögin í ríkisháskólunum, setja undir einkahlutafélög og innheimta fyrir það nám há gjöld. Ekki verður hægt að stunda þær greinar á Íslandi nema í einkareknum skólum gegn háum gjöldum.

Virðulegi forseti. Það er langt liðið á kvöld. Fleiri þingmenn eiga eftir að koma sínum viðhorfum að. Ég ætla því að láta máli mínu lokið í þessari umferð.