131. löggjafarþing — 53. fundur,  9. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[00:28]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefur af því áhyggjur að ég hafi einhverjar ranghugmyndir um skólagjaldapólitík Sjálfstæðisflokksins og ráðleggur mér að lesa niðurstöðu framtíðarhóps Samfylkingarinnar til þess að ég sjái hverjir séu hinir eiginlegu skólagjaldapostular á Íslandi. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið þessa niðurstöðu framtíðarhóps Samfylkingarinnar. Hins vegar hef ég hlustað af athygli á ræður hv. þingmanns, þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann kemur að málinu hér. Ég get í sjálfu sér látið mér standa nokkurn veginn á sama hvað flokksmenn Samfylkingarinnar vinna í flokksstarfi sínu og þarf ekki að halda um það langar ræður á Alþingi. Ég tek hins vegar afstöðu til þess sem ríkisstjórnin gerir og sýnir sig með lagasetningum.

Ég vil svara spurningum hv. þingmanns, en hann gagnrýnir mig fyrir að draga í efa að hér sé um þjónustugjald að ræða.

Ég ætla að vitna aðeins í greinargerð með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Háskóla Íslands sem lögð var fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi. Þar var gerð grein fyrir því hvers konar kostnað skrásetningargjaldið ætti að dekka. Þar segir, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að taka hærra þjónustugjald en almennt nemur kostnaði við að veita þá þjónustu sem kveðið er á um í gjaldtökuheimildinni,“ — sem er sambærilegt við það sem hv. þingmaður las úr máli Páls Hreinssonar — „í þessu tilviki skrásetningu.“

Nú kemur í ljós, í þeim frumvörpum sem hér um ræðir, að ýmislegt annað en skrásetning nemenda er felld undir þjónustugjaldið. Þess vegna er eðlilegt að maður gagnrýni það að hlutirnir skuli kallaðir öðrum nöfnum en í raun er verið að innheimta fyrir. Hér er innheimt fyrir margt annað en skrásetningu nemenda í háskóla.