131. löggjafarþing — 53. fundur,  9. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[00:33]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil segja hv. þingmanni það til fróðleiks að 120. löggjafarþing stóð 1995–1996. Þá kom hins vegar fram í greinargerð með frumvarpinu, varðandi skrásetningargjöldin, að undir heitið skrásetningargjald yrði felldur hluti kostnaðar við háskólastarfið, jafnvel þótt hann ætti að dekka margvíslega þjónustu sem stúdentum væri veitt á námstímanum utan formlegra kennslustunda.

Þetta er talið upp í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„... svo sem skráningu stúdenta í námskeið og próf, varðveislu upplýsinga um námsferil stúdenta, upplýsingar um námsferil sem sendar eru stúdentum þrisvar á hverju háskólaári, auglýsingu og miðlun upplýsinga vegna skráningar, skipulag kennslu og prófa, kennsluskrá, stúdentaskírteini og aðgang að þjónustu nemendaskrár, skrifstofu kennslusviðs, deildaskrifstofum, alþjóðaskrifstofu, upplýsingastofu um nám erlendis, námsráðgjöf, bókasafni og tölvum og prenturum Háskólans.“

Sem sagt, strax árið 1995 er fjöldi kostnaðarliða undir skrásetningargjaldi sem heyrir alls ekki til skrásetningu. Páll Hreinsson sagði í tilvitnunum hv. þingmanns áðan að þjónustugjöld yrðu að byggja á traustum útreikningum. Útreikningarnir til grundvallar þessu gjaldi hér eru ekki traustir. Þeir fela í sér svo margt annað en þjónustu við nemendur sem skrá sig inn í háskólana. Hvers vegna geta stjórnvöld ekki kallað hlutina sínum réttu nöfnum?

Að lokum vil ég segja, hæstv. forseti, að ég held að við þurfum ekki að eyða tíma okkar í tog um hvað gjaldið heitir, hvað nákvæmlega fellur undir það eða hvort það sé reiknað skakkt eða ekki, eða hversu skakkt það er reiknað. Grundvallaratriðið er að ég mótmæli þessum gjöldum. Ég tel að þau riðli og ógni jafnrétti til náms á háskólastigi.