131. löggjafarþing — 53. fundur,  9. des. 2004.

Háskóli Íslands.

348. mál
[00:47]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hækkun á svokölluðum skráningargjöldum við ríkisháskólana. Hér hefur verið gerð ítarleg grein fyrir nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar varðandi málið og ég vísa til ágætrar greinargerðar og ræðna hv. þingmanna Kolbrúnar Halldórsdóttur og Björgvins G. Sigurðssonar varðandi minnihlutaálitið.

Ég held að okkur sé öllum ljóst að hér er tekist á um grundvallaratriði, svokölluð prinsippmál, um það hvort menntun í háskólum skuli vera hluti af hinu almenna velferðarkerfi sem öll þjóðin ábyrgist að hægt sé að sækja á jafnréttisgrunni. Það er hluti af velferðarkerfinu sem við erum að takast á um hvernig skuli rekið. Það er tekist á um þá stefnu, hún birtist í fjárlagafrumvarpinu, hún þarf ekki endilega að birtast í flokkssamþykktum. Hún birtist í reynd í fjárlögum sem ráðandi flokkar á þingi setja fram. Þar sjáum við hver stefnan er. Boðuð er skattalækkun á almennum tekjuskatti en hækkun á komugjöldum til sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, sjúklingaskattar eru hækkaðir og gjöld á nemendur í háskólum eru hækkuð. Þetta er sú stefna sem okkur birtist.

Það skiptir litlu máli þótt einhver flokkur eins og t.d. Framsóknarflokkurinn, sem er með það á stefnuskrá sinni og gerir mikið úr fyrir kosningar að hann sé flokkur velferðar og jafnréttis og á móti skólagjöldum, á móti komugjöldum á sjúkrahús og sjúklingasköttum en eftir kosningar leggur hann fram fjárlagafrumvarp sem felur í sér allar þessar hækkanir, það skiptir litlu máli þótt hann móist við og segi að við þurfum að fara í einhverja kostnaðargreiningu á þessu, en niðurstaðan er önnur. Það skiptir litlu máli hvað einstaka þingmenn flokksins hafa sagt fyrir kosningar eða þegar þeir voru að berjast til áhrifa í stúdentapólitíkinni og hafi þá barist gegn þessu, og þótt þeir komi svo inn í þingið og segist vera með fyrirvara um sína fyrri stefnu breytir engu því að sannleikurinn birtist í rauntölunum í fjárlagafrumvarpinu. Þar eiga skráningargjöldin að hækka.

Herra forseti. Þegar hæstv. forseti var landbúnaðarráðherra — gott ef það var ekki í landbúnaðarráðherratíð hæstv. forseta sem þetta gjald var tekið upp — og ég var skólastjóri lenti ég í því að fylgja eftir reglunum um töku skólagjalda fyrst þegar veitt var heimild fyrir þeim, en eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir gerði grein fyrir sagði þáverandi menntamálaráðherra, Ólafur G. Einarsson, að veitt væri heimild til að taka skólagjöld til að mæta skertum fjárveitingum til skólanna. Þetta gilti bæði um háskólana og sérskólana þá. Ég man að þá kom í bandormi heimild til handa búnaðarskólunum að taka upp skólagjöld og jafnframt heimildinni var ætlast til þess að þeir innheimtu þetta háa upphæð í skráningargjöld þannig að samhliða heimildinni kom boð um að þeir skyldu gera það. Ég man að þetta var gert á þennan hátt. Að vísu var lögð rík áhersla á að þetta væri tilgreint. Þetta voru kölluð skráningargjöld og lögð var rík áhersla á það í upphafi að við mættum ekki rugla þar saman raunverulegum skráningargjöldum og efnisgjöldum. Ef við vorum með efnisgjöld, pappír, tölvunotkun eða eitthvað þess háttar varð að tilgreina það sér og gat ekki flokkast undir það sem þá voru kölluð skráningargjöld. Lögð var rík áhersla á það við okkur stjórnendur skólanna að við yrðum að geta varið þær tölur sem settar væru fram og þær yrðu einungis að snerta það sem um væri talað, hin svokölluðu skráningargjöld. En síðan hafa þau þróast með þeim hætti að verða meira almennur skattur.

Af því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sem ætti að vera það lögfróður að hann ætti ekki stöðugt að þurfa að sannfæra sjálfan sig um hvað hér er um að ræða, þá stendur í fjárlagafrumvarpinu varðandi hækkun á þessum skráningargjöldum að þetta sé hluti af tekjuforsendum frumvarpsins. Þar af leiðandi er þetta hluti af tekjuöflun ríkissjóðs því að annars færi það ekki inn í fjárlagafrumvarpið sem slíkt. Hækkun á hinum svokölluðu skráningargjöldum í skólana er hluti af tekjuöflun ríkissjóðs. Það skiptir engu máli hvað menn kalla þau, hvort menn vilja uppnefna þau á einn eða annan hátt og kalla þau skólagjöld, sem þau í rauninni eru, eða innritunargjöld, þetta er hluti af tekjuforsendum fjárlagafrumvarpsins, þetta er hluti af tekjum ríkissjóðs og þar af leiðandi er þetta líka innheimt fjármagn til þess að mæta kostnaði við rekstur þessara skóla. Og hvert er hlutverk þeirra skóla sem þarna er verið að innheimta fyrir? Það er kennsla og þegar hv. þingmenn reyna að hártoga verkefni skólanna og segja: þetta er hluti af kennslu, þetta er hluti af reksturskostnaði tölvuvers og þetta er hluti af einhverju öðru, þá eru þeir sömu þingmenn að mínu viti mikið úti í vindinum með það sem þeir eru að tala um því skólinn er stofnaður um kennsluna, um að koma henni á framfæri gagnvart nemendum. Hvort þar inni er rekstur á bókasafni eða rekstur á tölvuveri eða slíku fyrir nemendur þá er það hluti af kennslu í viðkomandi skóla og ekkert hægt að aðgreina það. Ef menn fara í svo mikla einföldun að segja að kennslan sé aðeins þær 45 mínútur sem kennslustundin varir og laun til viðkomandi kennara þá vita menn ekki mikið í hverju í kennsla og skólastarf felst. Það sem hér er verið að tala um er því bara hluti af hinum eiginlega rekstri skóla, það er hluti af kennslukostnaði viðkomandi skóla og verður engan veginn skýrt öðruvísi.

Ég minntist á það, herra forseti, að hér er tekist á um grundvallaratriði, grundvallarstefnur í skólamálum og velferðarmálum. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að þetta er hvergi tíundað lið fyrir lið í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, ef taka átti hann trúanlegan, ég les hana nú ekki svo nákvæmlega, en við sjáum bara stefnu Sjálfstæðisflokksins almennt gagnvart velferðarmálunum. Þar er verið að koma inn notendagjöldum, láta þá borga sem nota þjónustuna, hvort sem menn fara til læknis eða í skóla. Þetta er bara hluti af hinni almennu stefnu og þarf ekki að taka það sérstaklega fram.

Hlutskipti Framsóknarflokksins er aftur dapurlegra. Hann heldur fram þeirri stefnu fyrir kosningar sérstaklega að hann sé velferðarflokkur og vilji standa vörð um samfélagsþjónustuna, hann sé á móti skólagjöldum, hann sé á móti sjúklingasköttum, en eftir kosningar er þetta allt saman viðsnúið. Mér finnst dapurt þegar flokkur þarf að samþykkja fyrir kosningar að hann stefni ekki að skólagjöldum í grunnskólum o.s.frv. Svoleiðis lagað finnst mér dapurt, ég verð bara að segja það eins og er.

Ég ætla aðeins að vitna í ágæta umsögn með nefndaráliti minni hlutans sem rekur þetta mál mjög vel, um það hvernig menn eru á flótta undan því að kalla hlutina réttum nöfnum. Í ágætum umsögnum sem bárust frá nemendum við háskólana, Háskóla Íslands, Kennaraháskólann og Háskólann á Akureyri, er það rakið ósköp vel hvernig nemendur líta á þetta. Og hverjir vita best um hvað er að ræða ef ekki nemendur við þessa skóla? Hverjir vita það betur?

Þegar menn velta fyrir sér skilgreiningu á þessu þá ítreka ég það sem ég sagði áðan að verkefni þessara skóla er kennsla, sama í hverju þættirnir eru fólgnir. Ræstingar eru hluti af kennslustarfi viðkomandi skóla. Allt sem fer fram til að koma því starfi á framfæri sem skólinn hefur tekið að sér að gera er hluti af kennslustarfi skólans. Það er ekkert bútað niður í æðri og óæðri liði.

Herra forseti. Ég vil vitna hér til umsagnar stúdentaráðs Kennaraháskóla Íslands sem rekur þetta mjög skilmerkilega, með leyfi forseta:

„Stúdentaráð Kennaraháskóla Íslands mótmælir harðlega þeirri hækkun á skrásetningargjöldum sem gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi frumvörpum. Á sama tíma og auknar álögur eru settar á nemendur er gerð krafa um 1% hagræðingu í rekstri ríkisháskólanna í stað þess að gera eingöngu kröfu um hagræðingu í rekstri og hækka ekki skráningargjöldin.“ — Það væri alveg hægt að velja þessa leið. — „Með þessari aðferð er augljóslega verið að velta kostnaðinum frá ríkinu yfir á stúdenta.“ — Augljóst mál.

„Með aukinni tækni hefur kostnaður við skráningu stúdenta lækkað umtalsvert. Þær tölur liggja þó ekki fyrir. Þegar leitað var eftir tölum við kostnað á skráningu stúdenta við Kennaraháskóla Íslands kom í ljós að þær eru ekki til.“ — Að sjálfsögðu ekki. Þetta er hluti af heildardæminu í kennslustarfi skólans. — „Ekki hefur verið haldið sérstaklega utan um þann kostnað sem hlýst af skráningu stúdenta hingað til.“

Í lok umsagnarinnar segir formaður stúdentaráðs Kennaraháskóla Íslands, Sigurður Grétar Ólafsson, með leyfi forseta:

„Áætlanir um hækkun skrásetningargjalda grafa undan megingildum norrænnar menningar um gjaldfrjálsa almenningsmenntun og þar með velferðarkerfinu öllu.“ — Þetta er málið í hnotskurn. — „Stúdentaráð Kennaraháskóla Íslands hvetur menntamálanefnd til að hugleiða niðurrifsáhrif slíkrar hækkunar til langframa.“

Um þetta snýst málið, herra forseti.

Einnig segir í greinargerð fulltrúa Kennaraháskóla Íslands, þar sem þetta er skilmerkilega rakið, með leyfi forseta:

„Þegar Stúdentaráð Kennaraháskóla Íslands fór þess á leit við stjórnendur skólans að fá rökstuðning fyrir áformaðri hækkun ásamt og sundurliðun á skrásetningargjöldum fyrri ára kom í ljós að þær tölur eru ekki til. Það vekur því furðu okkar hvaða forsendur eru fyrir þeim tölum sem í frumvarpinu eru birtar. Starfsmenn Kennaraháskólans tjáðu okkur að þeim hafi verið gert að setja saman sundurliðun á skrásetningargjöldunum þannig að útkoman væri nærri 45 þús. kr. Það er því ljóst að ósk um hækkun kom ekki frá skólunum þó svo að að því sé látið liggja. Rétt er að auka það fjármagn sem skólarnir hafa til umráða, en það er framlag sem ætti að koma frá hinu opinbera en ekki frá stúdentum.“

Síðan er ítrekað í áliti nemenda að Kennaraháskóli Íslands sé einn best rekni ríkisháskóli landsins og við vitum líka af umræðunni í fjárlaganefnd að fjárhagslega hefur verið vel staðið að honum í rekstri, og vel staðið við kvaðir og skuldbindingar sem fjárlögin setja skólanum.

Í þessu áliti nemenda Kennaraháskóla Íslands, þeirra Elfu Svanhildar Hermannsdóttur, fulltrúa stúdenta við Kennaraháskólann, í stjórn Bandalags íslenskra sérskólanema, og Sigurðar Grétars Ólafssonar, formanns Stúdentaráðs Kennaraháskóla Íslands, er rakin sundurliðun um hvernig Kennaraháskólinn verður að bregðast við þeirri kröfu um að senda frá sér sundurliðun sem nemi sem næst þessari upphæð. Þar er m.a. greint frá nemendaskránni og bókasafninu.

Bókasafn er hluti af rekstri og kennslustarfi hvers skóla. Ef sérstakt gjald er tekið fyrir að nýta bókasafn þá er verið að taka kennslugjald.

Ef við tökum líka tölvukostnað, þá eru tölvur orðnar hluti af hinum almenna kennslubúnaði skólans og eru hluti af námstækjum sem viðkomandi skóli notar til að koma kennslu sinni á framfæri. Ef verið er að taka gjald fyrir það, þá er verið að taka gjald fyrir kennslustarf skólans. Svona má rekja mjög ítarlega hvernig hlutir sem í rauninni teljast til almennra kennslustarfa eru kostnaðargreindir.

Ég vil svo enda með orðum frá nemendum Kennaraháskólans, þeim Elfu Svanhildi Hermannsdóttur og Sigurði Grétari Ólafssyni, þar sem þau hafa rakið tölulega hvernig reynt er að rökstyðja þetta gjald með því að yfirfæra það á almennt kennslustarf skólans.

Með leyfi forseta:

„Þær tölur sem hér eru settar fram sýna það svart á hvítu að sú upphæð sem áætluð er vegna skrásetningar nemenda er hreinn og klár skáldskapur. Því er notkun orðsins skrásetningargjöld ekki aðeins villandi heldur er henni ætlað að hylma yfir þá áætlun sitjandi ríkisstjórnar að koma á skólagjöldum í háskólum. Sú upphæð sem nemendur greiða til skólanna fer að stórum hluta í rekstur þeirra og í þjónustu sem aðeins takmarkaður hópur innan hvers skóla notfærir sér. Því er enn og aftur á fáum árum seilst í vasa námsmanna til þess að mæta minnkandi framlagi ríkisins til ríkisháskólanna.“

Þetta er, herra forseti, málið í hnotskurn. Um þetta er hreinlega tekist. Það er tekist á um stefnu í velferðarmálum, það er tekist á um stefnu í skólamálum, hvort menntun eigi að vera forréttindamál eða hvort hún eigi að vera hluti af hinni almennu velferðarþjónustu, hluti af því að byggja upp sterkt og menntað samfélag þar sem allir eigi jafnan aðgang. Það er stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að svo sé, að menntun sé einn af hornsteinum samfélagsins og samfélagsþjónustunnar. Þau skref sem hér er verið að stíga, þ.e. að hækka og auka gjaldheimtu á nemendum í ríkisháskólunum, ganga því þvert á stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og þvert á þá stefnu að byggja upp sterkt menntað samfélag þar sem m.a. ríkir jöfnuður til náms.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vitnaði til orða Ólafs G. Einarssonar, þáverandi hæstv. menntamálaráðherra, þegar þessi skólagjöld voru tekin upp, en þar var haft eftir honum að gjöldin væru sett á til að mæta skertum framlögum ríkisins til ríkisháskólanna. Þetta var heiðarlega sagt og við getum virt þáverandi hæstv. ráðherra fyrir að nefna hlutina réttum nöfnum, þó að við séum honum fullkomlega ósammála að öðru leyti.

Herra forseti. Ég skora á hv. Alþingi að falla frá aðgerðum um að hækka skólagjöld nemenda í ríkisháskólum og vísa til ágætra greinargerða nemendafélaga skólanna og þess sem þar er lögð áhersla á, en þeir þekkja málin allra best. Hér er farið inn á þá hættulegu braut að mismuna nemendum til náms, að nám í háskólum verði forréttindi en ekki hluti af þeim almennu réttindum sem hver einstaklingur á að hafa í íslensku samfélagi.