131. löggjafarþing — 53. fundur,  9. des. 2004.

Fyrirvari í nefndaráliti.

[01:08]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég vil taka fram vegna fyrirspurnar sem til mín var beint frá hv. 7. þm. Reykv. s., Merði Árnasyni, að í bók sem heitir „Háttvirtur þingmaður“ og þingmenn hafa í hendi og er leiðbeiningarit um Alþingi og starfsemi þess, segir um fyrirvara í nefndaráliti:

„Nefndarmaður getur ritað undir nefndarálit með fyrirvara. Í því felst eitt eða fleiri af eftirfarandi atriðum:

Í fyrsta lagi getur nefndarmaður verið fylgjandi málinu en ekki fellt sig við einstakar útfærslur þess eða þá meðferð sem það hefur hlotið hjá nefndinni.

Í öðru lagi getur nefndarmaður haft efasemdir um málið en vill ekki standa gegn afgreiðslu þess.

Í þriðja lagi ætlar nefndarmaður sér að leggja fram eða styðja breytingartillögur í málinu sem meiri hlutinn stendur ekki að.

Ef nefndarmaður skrifar undir nefndarálit með fyrirvara er eðlilegt að hann geri stuttlega grein fyrir því hvað í fyrirvara hans felst en ítarlegri rökstuðningur komi fram við umræðu málsins. Rétt er að hafa í huga að þótt nefndarmaður skrifi undir álit með fyrirvara getur hann engu að síður greitt atkvæði með málinu í heild eða flutt eða stutt einstakar breytingartillögur er fram koma.“

Í því sérstaka álitaefni sem hér kom upp vil ég taka fram að dæmi eru um það bæði frá þessu þingi og áður að nefndarmaður hafi mælt með samþykki frumvarps með fyrirvara en síðan setið hjá við efnisgrein frumvarpsins.