131. löggjafarþing — 53. fundur,  9. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[01:43]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einfaldlega ekki rétt sem fram kom í máli hv. þingmanns að allir í háskólunum séu ósammála því að skólagjöldin geti ekki orðið til þess að auka sveigjanleika og meira svigrúm fyrir háskólann sem slíkan. Menn eru einfaldlega ekki sammála því.

Ég hef undirstrikað að ég tel það ekki fýsilegan kost að leggja skólagjöld á grunnnám, ekki út af því að það geti ekki orðið til þess að efla háskólann, heldur fyrst og fremst hvernig ég lít orðið á grunnnámið í samhengi við það nám sem fyrir er á skólagöngu hvers einstaklings. Það er orðinn eðlilegur hluti af framhaldi einstaklinga eftir nám þeirra í framhaldsskóla.

Varðandi aukna gjaldtökuheimild til háskóla hefur mér verið bent á að háskólanámi er mjög þröngt sniðinn stakkurinn þegar kemur að slíku, til að mynda eiga þeir erfitt með að setja á fót námskeið á sumrin sem t.d. prófessorar gætu staðið fyrir, 6–8 vikna námskeið. Þeir eiga mjög erfitt með að taka til að mynda gjöld fyrir slík námskeið þó að þeir sem mundu sækja námskeiðin mundu fegnir vilja borga einhverjar ákveðnar fjárhæðir fyrir slíkt.

Ég er að tala um að skoða heildarmyndina, skoða það svigrúm og þau tækifæri sem háskólarnir hafa almennt til þess að taka gjöld fyrir ákveðna þjónustu og til þess að bregðast við í stjórnsýslunni hjá sér þannig að þeir geti staðið með reisn í þeirri samkeppni sem þeir standa í. Það er fyrst og fremst þetta sem vakir fyrir mér þegar ég tala um sveigjanleika og svigrúm fyrir hina opinberu háskóla og auðvitað er þetta allt gert með það að markmiði að efla menntakerfi okkar, efla háskólastigið í landinu.