131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[10:21]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að stjórnin, sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, er upptekin af því að stækka kökuna en ekki skipta henni. (Gripið fram í.) Málið er að við viljum baka stærri köku. Við viljum að kakan sé svo stór að allir fái væna sneið úr henni, allir fái stækkandi sneið. Það er einmitt það sem hefur gerst. Lægstu laun og bætur hafa hækkað meira en nokkuð annað hér á landi og það miklu meira en í nokkru öðru landi. Þetta höfum við gert með því að stækka kökuna, herra forseti. Við erum ekki upptekin af því að skipta henni heldur af því að stækka hana.

Það má vel vera að ræstingakonan sé ekki með nógu góð laun. Auðvitað eigum við að stefna að því að hún fái há laun og við erum að gera henni kleift að fá hærri laun með því að lækka fátæktargildruna, lækka þrepin sem hún þarf að stíga yfir. Það erum við að gera markvisst. Við viljum nefnilega að ræstingakonan sé með góð laun líka.

Hvernig þetta er fjármagnað — það vill svo til að ríkissjóður hefur á þessu ári með fjárlagafrumvarpi hæstv. fjármálaráðherra 10 milljarða í afgang þrátt fyrir skattalækkunina. (Gripið fram í.)

Síðan þetta með feluskattana, það er bara ein skattahækkun sem er skattahækkun, það er til Fasteignamatsins. Það er það eina og það eru 150 kr., herra forseti, 150 kr. á mánuði á hverja íbúð. (Gripið fram í.) Nei, aðrir skattar eru aðlögun að verðbólgu, þar á meðal t.d. skráning hlutafélaga sem er hækkuð upp í 165 þús. kr. en ætti að vera 210 þús. Er það það sem hv. þm. vill, að skráning hlutafélaga standi í stað í krónutölu áratugum saman?