131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[11:09]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur þarf ég að koma upp í andsvar og svara hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem fer með lygar. Hann heldur því fram að Framsóknarflokkurinn sé að stoppa af lækkun matarskattsins. Þetta er lygi, hann ætti að vita betur. Það er komin af stað vinna og það er einfalt mál að við þurfum að athuga það svigrúm sem við höfum til að fara út í frekari skattalækkanir. Ég held að hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni væri nær að biðjast afsökunar.

Er það forgangur Samfylkingarinnar að t.d. einhleypur einstaklingur fái um 1.300 kr. á mánuði í vasann vegna lækkunar matarskatts? Okkar forgangur er sá að einhleypur einstaklingur fái um 14 þús. kr. í auknar ráðstöfunartekjur á mánuði og ef viðkomandi er að greiða af námslánum koma til viðbótar um 3 þús. kr. Við teljum þetta vera forgangsröðun í lagi.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þingmenn að gæta háttvísi í orðum sínum og nota ekki orð eins og lygi í ræðum sínum í þinginu.)