131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:03]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Allir flokkar vilja hækka barnabætur og einmitt það erum við að gera. Það þarf að gera betur við barnafólk. Núverandi stjórnarflokkar hafa einmitt gengið í það verk og við ræðum hér um hvernig eigi að gera þetta. Ég er mjög ánægð með niðurstöðuna. Sú upphæð sem var rætt var um í síðustu kosningabaráttu að færi í að hækka barnabætur skilar sér með þessari breytingu. Það hefði verið hægt að setja aðra upphæð í barnabæturnar en það var ekki gert.

Varðandi það að skattalækkanirnar komi fram að mestu leyti í lok kjörtímabilsins þá er það vegna þessara stóriðjuframkvæmda sem þá verða búnar eða farið að líða að lokum þeirra. Þess vegna er áætlað að skattalækkanirnar komi fram þá. Þá verða reyndar kosningar líka en tímasetningin miðast við að við lendum ekki í niðursveiflu í efnahagslífinu í lok þessa kjörtímabils, þegar stóriðjuframkvæmdum fer að ljúka. Þá koma skattalækkanirnar fram af fullum þunga og viðhalda betra ástandi.