131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[12:15]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er sennilega aðeins eitt sem ég get tekið undir í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, þ.e. að skattamál snúist um grundvallaratriði í stjórnmálum. Það er ágætt að fá það fram af hálfu Vinstri grænna. Þar greinir þá flokka sem annars vegar mynda ríkisstjórnina og hins vegar þá flokka sem standa saman að stjórnarandstöðunni verulega á. Í tilviki Vinstri grænna er allljóst hvað þeir vilja. Í tilviki sumra annarra stjórnarandstöðuflokka er það alls ekki jafnljóst, enda virðast menn eiga í vandræðum með að finna stefnuna.

Í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar og annarra talsmanna Vinstri grænna við 1. umr. um málið komu fram áhyggjur af efnahagspólitískum og hagstjórnarlegum áhrifum skattalækkana. Það væri gott að fá að heyra nokkuð skýrt frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni hvort hann telji að skattahækkunaraðgerð R-listans í Reykjavík sé efnahagspólitískt skynsamleg aðgerð?