131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[13:02]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þarf sennilega tvö andsvör til að komast yfir þessar spurningar allar.

Í fyrsta lagi talaði hv. þingmaður um skúringakonuna og að hún gæti e.t.v. orðið verkstjóri og hækkað í launum. Ég held að það komi skattkerfinu ekkert við, hv. þingmaður, (PHB: Jú …) hvort skúringakona geti orðið verkstjóri í vinnuflokki sínum eða ekki. Ég vona vissulega að þeir sem lægst hafi launin í þessu þjóðfélagi, þar með talin skúringakonan, geti hækkað í launum. Ég sé ekki að skattkerfið eins og það er komi í veg fyrir að fólk hækki í launum. Kem ég þá að sjómönnum.

Ég hef aldrei orðið var við það að sjómenn teldu eftir sér að borga skatta til þjóðfélagsins frekar en aðrir sem hafa laun í þessu þjóðfélagi. Þeir sem hafa talið að þeir væru að greiða of mikla skatta eru fyrst og fremst þeir sem eru með lægstu launin. Hv. þingmaður hlýtur að geta verið sammála um það að þeir sem lægst hafa launin í þessu þjóðfélagi eigi að geta lifað af launum sínum. Það er varla hægt miðað við að fólk greiði tekjuskatta af launum undir 100 þús. kr. á mánuði.

Ég held að ekki þurfi að vera að tala hér um eina stétt, hvorki sjómenn, tryggingastærðfræðinga né neina aðra í þessu sambandi. Menn hafa misjafnlega góð laun. Sumar stéttir hafa góð laun þegar mikið er að gera. Sjómenn njóta aflahlutfalls en taka mikla áhættu við störf sín, eins og varðandi verðmyndun. Hver skyldi staða þeirra verða núna þegar þróun gengisins er eins og hún er og miklar líkur eru á erfiðleikum í útgerð og fiskvinnslu að því er varðar tekjuinnstreymið?

Ég kem að öfundinni á eftir.