131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Varamaðut tekur þingsæti.

[13:30]

Forseti (Halldór Blöndal):

Borist hefur svohljóðandi bréf um forföll þingmanns frá varaformanni þingflokks Samfylkingarinnar, Kristjáni L. Möller, dagsett 9. desember 2004:

„Þar sem Ásta R. Jóhannesdóttir, 4. þm. Reykv. s., er erlendis í opinberum erindum og getur ekki sótt þingfundi á næstunni óska ég eftir því, með vísan til 2. mgr. 53. gr. þingskapa, að 3. varaþingmaður á lista Samfylkingarinnar í Reykv. s., Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður, Reykjavík, taki sæti hennar á Alþingi á meðan, en 1. og 2. varamaður á listanum eru forfallaðir, samanber bréf þeirra.“

Þá hefur borist svohljóðandi bréf frá 1. varaþingmanni Samfylkingarinnar í Reykv. s., Einari Karli Haraldssyni, dagsett 9. desember 2004:

„Tilkynni að vegna anna get ég undirritaður varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykv. s. ekki tekið sæti á Alþingi í fjarveru Ástu R. Jóhannesdóttur, 4. þm. Reykv. s., frá og með 4. desember fram að jólaleyfi þingmanna.“

Einnig hefur svohljóðandi bréf borist frá 2. varaþingmanni Samfylkingarinnar í Reykv. s., Kristrúnu Heimisdóttur, dagsett 9. desember 2004:

„Vegna anna get ég ekki að þessu sinni tekið sæti Ástu R. Jóhannesdóttur, 4. þm. Reykv. s., á Alþingi. Þetta tilkynnist hér með.“

Kjörbréf Jakobs Frímanns Magnússonar hefur þegar verið rannsakað og samþykkt en hann hefur ekki áður tekið sæti á Alþingi og ber því að undirskrifa drengskaparheit að stjórnarskránni.

 

[Jakob Frímann Magnússon, 4. þm. Reykv. s., undirritaði drengskaparheit um að halda stjórnarskrána.]