131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[13:42]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í Fréttablaðinu í morgun birtist grein um skattamál með fyrirsögninni „Skattaparadís hátekjufólks“. Í þeirri grein kemur fram að hátekjufólk á Íslandi greiðir lægri skatta og lágtekjufólk hærri skatta en almennt tíðkast í löndunum í kringum okkur. Flest önnur skattkerfi en hið íslenska byggja á þrepakerfi þar sem skattar fara stigvaxandi eftir tekjum.

Hér ræðum við frumvarp sem mun enn auka á skattaparadís hátekjufólksins en samkvæmt frumvarpinu munu 200 hæstu skattgreiðendur hér á landi í tekjuskatti fá, þegar skattalækkunin er að fullu komin til framkvæmda, 2,4 millj. á ári eða 197 þús. kr. á mánuði. Þetta eru topparnir í þjóðfélaginu, ofurforstjórarnir, forstjórarnir með ofurlaunin sem fá 197 þús. kr. á mánuði þegar skattalækkunin er að fullu komin til framkvæmda.

Farið hefur verið yfir þá örfáu þúsundkalla sem lægst launaða fólkið mun hafa út úr skattalækkuninni þegar hún er að fullu komin til framkvæmda.

Í greininni sem ég vitnaði til er skoðaður samanburður á tekjuskatti hér á landi og í tíu löndum Evrópu. Ég vitna orðrétt í greinina undir fyrirsögninni „Háir skáttar á lágtekjufólk á Íslandi“, með leyfi forseta:

„Lágtekjumanneskja á Íslandi, með 100 þúsund krónur í laun á mánuði, greiðir hlutfallslega meira í skatta en í flestöllum þeim löndum sem könnuð voru.“ — Þar virðist Ísland eiga met að lágtekjumanneskja með 100 þús. kr. í laun á mánuði greiði hlutfallslega meira í skatta en í flestum þeim löndum sem könnuð voru. — „Aðeins Norðmenn, Finnar og Svíar greiða hærra hlutfall af lágmarkslaunum en Íslendingar.“

Þar kemur fram að Danir innheimta lægsta tekjuskattinn af lágtekjufólki af öllum Norðurlöndunum eða 4,22%. Á Íslandi eru málin þannig vaxin að þeir sem eru með innan við 100 þús. kr., frá skattleysismörkum að 100 þús. kr., eru 29 þúsund manns sem ríkið hirðir af 2 milljarða kr. í skatta á ári.

Í umsögn sem við fengum frá Öryrkjabandalaginu kemur m.a. fram að svo sé komið á Íslandi að öryrkjar sem eru með lífeyri almannatrygginga sér til framfærslu greiði orðið sem svarar tveggja mánaða lífeyrisgreiðslu í skatt á ári. Þannig er nú búið að fólki í hinu ágæta þjóðfélagi okkar.

Við höfum flutt hér ítarlegt nefndarálit minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar sem dregur fram á mjög skýran hátt hvaða áhrif skattalagabreytingarnar sem ríkisstjórnin boðar hafa á einstaka tekjuhópa. Ég vil fara yfir það í ræðu minni hér en fyrst draga fram eins og aðrir í Samfylkingunni hafa gert, sem er staðreynd sem ekki er hægt að mótmæla, að á þessu og næsta ári hefur ríkisstjórnin hækkað eða boðað hækkun skatta og gjalda á einstaklinga og skert barna- og vaxtabætur um rúma 8 milljarða kr.

Hverju ætlar ríkisstjórnin að skila til baka á næsta ári í skattalækkunum? 5,6 milljörðum kr., en hefur tekið 8 milljarða í gegnum skattahækkanir og gjaldahækkanir, m.a. í heilbrigðiskerfinu, og skert barna- og vaxtabætur mikið. Ríkisstjórnin ætlar sem sagt að skila 5,6 milljörðum af þessu á næsta ári. Hverjir fá svo þá 5,6 milljarða? Við höfum sýnt fram á það í tillögum okkar eða greinargerð sem hér er lögð fram, þar sem fram kemur að af þeim rúmu 5 milljörðum sem skila á í skattalækkanir á næsta ári fá 25% af hinum tekjuhæstu 2,5 milljarða af þessum skattalækkunum. Þetta er réttlætið, þetta er nú sanngirni ríkisstjórnarinnar.

Mig langar að byrja á því að fara yfir þróun tekjuskatts og sérstaklega hvernig farið hefur verið með skattleysismörkin í tíð núverandi ríkisstjórnar. Ágætt línurit sem fjármálaráðuneytið útbjó sýnir hvernig persónuafsláttur hefur þróast frá 1988 miðað við bæði neysluvísitölu og launavísitölu. Línurnar eru svo til samsíða þangað til 1995 en þá byrjar að klofna á milli þegar þessi ríkisstjórn tekur við. Þá byrja skattleysismörkin fyrst að skerðast og persónuafslátturinn vegna þess að ríkisstjórnin þurfti að fara í vasa lágtekjufólks og meðaltekjufólks, en fyrst og fremst gagnast persónuafslátturinn og skattleysismörkin til þess að eiga fyrir skattalækkunum hátekjuhópanna.

Við drögum það fram í áliti okkar að skerðing skattleysismarka frá 1989, sem að mestu kemur fram eftir 1995 eins og fram kemur í þessu línuriti, er svo harkaleg að samkvæmt upplýsingum fjármálaráðuneytisins má áætla að ríkissjóður hafi tekið 36,4 milljörðum kr. meira til sín árið 2003 en ella hefði verið ef skattleysismörkin hefðu fylgt launavísitölu. Með sömu nálgun er um að ræða 16,3 milljarða kr. ef miðað er við neysluvísitölu. Þessar tekjur þurfti ríkisstjórnin að taka af lágtekjufólkinu til að eiga fyrir skattalækkunum á hátekjuhópana sem hún hefur staðið að í tíð sinni.

Skattleysismörkin eru í dag rúmar 71 þús kr. á þessu ári en ættu að vera 114 þús. kr. ef þau hefðu fylgt þróun launavísitölu og 86 þús. kr. ef þau hefðu fylgt þróun neysluvísitölu. Þá tugi milljarða hefur ríkisvaldið svo nýtt til að lækka skatta á fjármagni og fyrirtækjum og það er það sem hefur verið að gerast á undanförnum árum í tíð núverandi ríkisstjórnar, það er verið að færa skatta af fjármagni og fyrirtækjum yfir á launþega og lífeyrisþega.

Allt þetta er tekið upp í umsögnum sem við höfum fengið frá þeim sem þetta hefur komið sérstaklega hart niður á, eins og Öryrkjabandalaginu og Landssambandi eldri borgara sem eru með harðorðar umsagnir um hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram við umbjóðendur þeirra. ASÍ hefur einnig dregið fram þessa staðreynd í umsögn sinni. Öryrkjabandalagið bendir á að lífeyrisþegar sem ekkert hafa nema bætur almannatrygginga séu nú farnir að greiða jafngildi tveggja mánaða útborgunar á ári hverju í beina skatta. Landssamband eldri borgara bendir á að aldraðir með 110 þús. kr. í tekjur á verðlagi 2004 greiði nú 13,7% af tekjum sínum í skatt, en greiddu 1,5% á árinu 1988. Þegar Öryrkjabandalagið er að tala um jafngildi tveggja mánaða útborgunar á ári hverju í beina skatt er auðvitað spurning hvort inni í því séu allar gjaldtökurnar í heilbrigðiskerfinu, hækkanir á lyfjakostnaði og lækniskostnaði sem eru orðnar svo miklar að þessir hópar eiga oft erfitt með að leysa út lyfin sín eða leita sér lækninga.

Það er auðvitað sláandi að skoða það sem ég nefndi áðan að þegar 29 þúsund manns eru með tekjur undir 100 þús. kr á mánuði og borga 2 milljarða kr. í skatt á ári þá er staðreyndin sú að 1% ríkustu Íslendinganna eða um 500 manns eru með 88% af tekjum sínum sem fjármagnstekjur eða 54 millj. kr. og 7 millj. í launatekjur hver einstaklingur að meðaltali. Það dregur auðvitað niður þá skatta sem þetta hátekjufólk borgar af tekjum sínum til samfélagsins og þeir greiða því að meðaltali um 12% af tekjum sínum í skatta meðan fólk með meðaltekjur greiðir 25–27%. Ég spyr: Eru stjórnarflokkarnir, eru stjórnarliðar stoltir af því hvernig við dreifum skattbyrðinni í þjóðfélaginu?

Við höfum sýnt fram á það með margvíslegum útreikningum að með skattalækkunartillögum stjórnarflokkanna fá þeir mest sem mest hafa fyrir. Það er ágætt að skoða hvernig áhrif af lækkun tekjuskatts, hátekjuskatts og eignarskatts koma út í raun og sanni í fylgiskjali II með nefndaráliti okkar, og þær niðurstöður eru byggðar á svari fjármálaráðherra við fyrirspurn minni um skattalækkanir, sem var mjög ófullburða svar og þurfti að leggjast yfir útreikninga til að skoða raunverulega áhrifin, af því að fjármálaráðherra skammast sín auðvitað fyrir að láta þessi áhrif koma fram og reynir þá að flækja talnaefni sem kemur fyrir þingið til að torvelda þingmönnum að gera sér í raun og sanni grein fyrir hvaða áhrif þetta hefur.

Lítum nánar á það. Þá kemur fram óréttlætið, hvernig þetta í raun og sanni er, að tekjulægri helmingurinn fær samkvæmt þessum töflum 4 milljarða í sinn hlut, þeir sem eru í meðaltali eða undir, eða um 17% í lækkun en tekjuhærri helmingurinn fær rúma 19 milljarða eða nærri 83% lækkunarinnar. Þetta er staðreyndin. 82% af lækkun almenna tekjuskattsins, öll lækkun hátekjuskattsins og 75% af lækkun eignarskattsins lendir hjá tekjuhærri helmingnum. Þegar við skoðum þá allra tekjuhæstu hjóna annars vegar og einhleypra hins vegar þá fá þeir mest og þeir allra tekjulægstu í þessum hópi fá ekkert. Tölurnar sýna að 5,4 milljarðar kr. eða nærri fjórðungur lækkunarinnar fer til þeirra 5% tekjuhæstu í hópunum og 21 milljón eða 0,1% heildarlækkunar skatta fer til 5% í tekjulægstu hópunum.

Er nema von, virðulegi forseti, að við í Samfylkingunni og stjórnarandstöðunni höfum bent á hvernig þessi dreifing er. Við erum ekki á móti því að skila skattalækkunum til fólks í landinu, það er svigrúm til þess og það eigum við að gera. En við viljum ekki að þær fari í vasa þeirra efnameiri með þeim hætti sem við höfum lýst hér, að obbinn af þessum hækkunum renni til þeirra, alveg eins og ég lýsti áðan að topparnir, hálaunamennirnir sem eru í hálaunastiganum, ofurforstjórarnir fá svo góðan hlut af þessari köku að þeir fá í skattalækkun 2,4 milljónir á ári eða 197 þús. kr. á mánuði.

Það er kannski þetta sem hv. þm. Pétur H. Blöndal meinar þegar hann ræður sér ekki fyrir fögnuði í stólnum út af þessari skattalækkun, að ofurforstjórarnir fá í sinn vasa á þriðju milljón í skattalækkun þegar þetta er allt komið að fullu til framkvæmda (Gripið fram í.) meðan hann skammtar nánast ekki neitt til tekjulægstu hópanna (Gripið fram í.) og brosir hér gleitt yfir því hvernig ríkisstjórnin stendur að því að dreifa skattbyrðinni þar sem hv. þingmaður hefur staðið að því að skerða svo skattleysismörkin hjá þessu fólki að það skiptir tugum milljarða króna sem tekið hefur verið af því til að færa yfir til hinna ríku. Þetta eru þær staðreyndir sem við stöndum frammi fyrir, virðulegi forseti, við 2. umr. málsins þegar við ræðum þetta.

Og ríkisstjórnin er ekkert hætt að rýra persónuafsláttinn vegna þess að hún tekur ekki tillit til þess í þessari útfærslu sinni að persónuafsláttur gæti rýrnað um 330–650 millj. kr. á næsta ári eftir því hvort stuðst er við spá fjármálaráðuneytisins eða ASÍ vegna þess að verðbólgan hefur orðið meiri en gert var ráð fyrir. Miðað við spá fjármálaráðuneytisins mundi persónuafsláttur rýrna um 330 millj. á næsta ári en miðað við spá ASÍ 650 millj. Það er verið að rýra hjá þeim sem fá 1 eða 2 þús. kr. í skattalækkun á mánuði á næsta ári með því að skerða enn persónuafsláttinn. Þetta hefur komið fram í þeim gögnum sem lögð hafa verið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd. Með hliðsjón af því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að persónuafslátturinn hækki á næstu árum minna en verðlag og minna en launabreytingar má gera ráð fyrir því að þessi lækkun skatta að raungildi verði að veruleika, einkum í neðri hluta tekjuskalans. Við bendum á það í nefndaráliti okkar að þar gætu skattar jafnvel hækkað og skattbyrði aukist af þessum sökum, eins og kom fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur á sínum tíma, sem leiddi í ljós hvað gerst hafði þá á síðustu árum.

Við höfum vakið athygli á þessari rýrnun á persónuafslættinum og spurt hvort stjórnarliðar vilji ekki skoða að þess verði gætt við afgreiðslu þessa máls að persónuafslátturinn rýrni ekki sem þessu nemur á næsta ári. Þar tölum við fyrir daufum eyrum. En í þeim tölum sem við höfum nefnt hér endurspeglast auðvitað skattalækkun ríkisstjórnarinnar sem mismunar fólki eftir tekjum og færir þeim mest sem mest hafa fyrir.

Ég ætla aðeins að víkja að barnabótunum, virðulegi forseti, og ég veit að hjartað fer að slá örar í hv. þm. Birki J. Jónssyni, sem veit upp á sig skömmina (Gripið fram í.) hvernig Framsóknarflokkurinn hefur staðið að því að skerða svo barnabætur og hlunnfara barnafólk að það vantar 10 milljarða upp á að barnabætur hafi haldið sama raungildi og þær höfðu á árinu 1995. Það á einungis að skila fjórðungi af þessu til baka eða 2,4 milljörðum kr. þegar allt er komið til framkvæmda. Það verður ekki á næsta ári vegna þess að barnafólk er ekkert í forgangi hjá núverandi ríkisstjórn. Þegar hærra launaði kanturinn í þjóðfélaginu er búinn að fá sitt þá er komið að því skila barnafólkinu fjórðungi af því til baka sem það hefði átt að fá ef barnabætur hefðu haldið raungildi sínu frá 1995.

Það er svo merkilegt að þegar maður fer að stúdera hvaða áhrif barnabæturnar munu hafa, þegar þær eru þá komnar til framkvæmda, ég hélt satt að segja að ótekjutengdi hlutinn sem gengur til alls barnafólks hefði stækkað við breytinguna, en það er ekki svo. Hlutfall ótekjutengdra barnabóta af heildargreiðslum sem allir foreldrar fá óháð tekjum var 56% árið 1995 þegar barnvæn ríkisstjórn var við völd (Gripið fram í: Já, förum yfir það.) en er komið niður í 19% á þessu ári. Auk þess náðu ótekjutengdu barnabæturnar til allra barna að 16 ára aldri á árinu 1995 en nú einungis til barna að 7 ára aldri.

Það breytist harla lítið á árinu 2007 varðandi ótekjutengda hlutann þegar allt er komið til framkvæmda vegna þess að ótekjutengdi hlutinn er kominn í 20% en var 19% og tekjutengdi hlutinn er í 80% en var í 81%. Það er því lítil breyting á milli þess sem þeir sem eru í ótekjutengda hlutanum fá af kökunni miðað við hvað aðrir fá.

Ef við skoðum hvernig þetta skilar sér til tekjuhópa, af því að skiptingin er meira að segja líka þannig þarna að þeir sem hafa mest fyrir fá mest. (Gripið fram í: Í barnabótum?) Já, í barnabótunum. Hér kemur fram í útreikningum sem ég hef að einstætt foreldri með 1,4 millj. til 1,6 millj. í árstekjur mun fá 74 þús. kr. í auknum barnabótum þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda árið 2007, en einstætt foreldri með 4,8–5 millj. í árstekjur mun fá 111.602 kr. í auknar bætur. Ég veit ekki hvort hv. þm. Birkir J. Jónsson hefur stúderað þetta eins og ég hef gert, vegna þess að ég hélt virkilega að þið væruð að gera eitthvað betur fyrir barnafólk en þið hafið gert á umliðnum árum en svona er dreifingin á þessu. Hún skilar sér með þessum hætti.

Áhrifin af hækkun barnabóta sem felast í tillögum ríkisstjórnarinnar eru þau að mesta hækkunin verður á greiðslum til þeirra foreldra sem hafa meðaltekjur og hærri tekjur og þeim mun meiri aukning sem tekjurnar eru meiri. Þannig er þetta og þegar við lítum á hve stór hluti fær algjörlega óskertar barnabætur eru þeir sem fá óskertar barnabætur einstæðir foreldrar með 60 þús. kr. á mánuði og munu þegar þetta er komið að fullu til framkvæmda verða 93 þús. kr. Þeir sem eru með 93 þús. og ekkert meira fá óskertar barnabætur þegar þetta er komið að fullu til framkvæmda.

Hjón sem fá óskertar bætur fá óskertar bætur ef þau eru samanlagt með bara 120 þús. kr. á mánuði en verður 186 þús. kr. mánaðartekjur þegar breytingin er að fullu komin til framkvæmda. Síðast þegar ég skoðaði það er hópurinn sem fær óskertar barnabætur rúmlega 11% af heildinni einstæðir foreldrar og 3% hjóna. Barnabætur á Íslandi, sem er öðruvísi en hjá öðrum þjóðum, eru því láglaunabætur en ekki barnabætur, það er staðreyndin. Flestar þjóðir greiða ótekjutengdar barnabætur. (Gripið fram í.) Ég er að vekja athygli á staðreynd … (Gripið fram í: … þeir ríku mest.) Virðulegi forseti … (Gripið fram í: Þetta er stefna Samfylkingarinnar.) Virðulegi forseti, ég er að vekja athygli á þeirri staðreynd að flestar þjóðir greiða ótekjutengdar barnabætur og líta á þetta sem stuðning við börnin, þannig er hugmyndafræðin á bak við þetta. Við erum sennilega eitt þriggja landa sem greiðum tekjutengdar bætur en þær eru alveg örugglega hvergi láglaunabætur eins og hér á landi. (Gripið fram í.) Þetta er staðreyndin sem við stöndum frammi fyrir. (Gripið fram í.)

Ókyrrast nú stjórnarliðar eftir því sem líður á ræðu mína. (Gripið fram í: … Alþýðuflokkurinn.) Þetta eru bara staðreyndir sem verið er að reiða fram. Á ég að færa hv. þingmanni, virðulegi forseti, eintak af þessu sem hann getur tekið með sér í rúmið í kvöld og stúderað? Þar sjáum við hvernig skattleysismörkin hafa þróast í tíð núverandi ríkisstjórnar og tíð hinnar fyrri. (Gripið fram í: … sofna.) Já, ég veit að hv. þingmaður mundi sennilega ekki sofna ef hann tæki þetta með sér í rúmið.

Ég ætla að víkja næst að afnámi eignarskatta. Þar telur ríkisstjórnin sig heldur betur hafa gott fram að færa og það sé rós í hnappagat núverandi ríkisstjórnar hvernig hún ætlar að standa að eignarskattinum — og bera svo á borð fyrir okkur að eignarskatturinn nýtist langbest eldri borgurum í stórum eignum og með lítið sér til framfærslu. (Gripið fram í.)

Er það nú svo, virðulegi forseti? Við í Samfylkingunni viljum mjög gjarnan standa að því að afnema eignarskatt hjá fólki sem er með litlar tekjur í stærri eignum. En það á ekki að setja fram tölur með þeim hætti sem stjórnarflokkarnir hafa gert, þeir setja fram kolranga mynd af staðreyndum.

Hvernig líta fyrstu upplýsingar sem við fáum í nefndinni í töflum frá fjármálaráðuneytinu út? Þar er slengt saman í eina töflu öllum þeim sem greiða eignarskatta og þeir eru settir fram sem einstaklingar en ekki sundurliðað á einstaklinga og hjón. Auk þess, af því að við erum að brjóta þetta niður á fólk miðað við tekjur, er ekki sett inn í þessar tölur fjármagnstekjur sem stór hluti af þeim sem eru með eignarskatt hafa. Ég nefndi áðan manninn sem er með 54 millj. í fjármagnstekjur en 7 millj. í launatekjur. Þessar 54 millj. hans koma ekki inn í útreikninga ráðuneytisins þegar verið er að sýna fram á hverjum lækkanirnar gagnast best.

Þetta er að fara rangt og villandi með staðreyndir og tölur vegna þess að þegar þetta er allt dregið inn í, að skipta hjónum niður í einn flokk og einstaklingum í annan kemur allt önnur mynd. Þegar verið er að draga einstaklingana fram í einn flokk og segja: Þetta eru áhrifin, þá eru virðulegir stjórnarliðar að taka forstjórana sem eru kannski með 3 millj. á mánuði og maki þeirra heimavinnandi með engar tekjur, og hvernig kemur þetta út ef allt er hólfað niður í einstaklinga? Þá er makinn sem er heima sem er giftur manninum með 3 millj. sýndur sem tekjulaus með mikinn eignarskatt. Það er ekki rétt að gera þetta með þessum hætti. Hv. þingmenn vita að það hefur verið blekkt mjög með tölur í þeirri framsetningu sem hv. stjórnarliðar hafa staðið fyrir. (Gripið fram í.) Skiptir maki máli? (Gripið fram í: Skipta tekjur maka einhverju máli?) Þegar við skoðum hvernig þetta kemur út, hver áhrifin eru fyrir heimilin og þá sem mest hafa á auðvitað að taka þetta með. (Gripið fram í: … öryrkjubótum.)

Fjármagnstekjur eru heldur ekki teknar með, eins og ég sagði, í útreikningunum. Hv. þm. Pétur H. Blöndal vill greinilega ekkert setja fjármagnstekjurnar sem mest renna til þeirra efnamestu inn í útreikningana af því að það skekkir myndina, það skekkir fögnuðinn hjá hv. þingmanni ef þær eru teknar með inn í myndina.

Ég kallaði eftir því í morgun að fá töflur frá fjármálaráðuneytinu, og ekki veit ég hvort stjórnarliðar í efnahags- og viðskiptanefnd hafa skoðað þær. Þar er brotið niður í hópa einstaklinga annars vegar og hjón hins vegar og teknar inn í fjármagnstekjurnar. Hvað kemur þá í ljós, virðulegur forseti? Við skulum t.d. líta á töfluna eins og hún var, þó brotið niður á einstaklinga og hjón, áður en fjármagnstekjuskatturinn var tekinn inn. Þá var neðsti hlutinn sem var með 12 millj. og yfir í tekjur, hlutfall þeirra af eignarskattinum eða eignarskattslækkunin var 8,21%, en þegar þetta er brotið niður og fjármagnstekjuskatturinn er tekinn inn eru þetta 22,6%. Svona mætti halda áfram að skoða töflurnar. Þetta gefur auðvitað allt aðra mynd þegar þetta er tekið með. Þá kemur fram, eins og við setjum fram í útreikningum okkar, að um helmingur allrar eignarskattslækkunar við niðurfellingu eignarskattsins liggur hjá efsta fjórðungi framteljenda hvort sem litið er til einhleypra eða hjóna. Þar kemur fram að um fjórðungur allra eignarskatta liggur hjá efstu 5% framteljenda hvort sem litið er til einhleypra eða hjóna.

Einnig kemur fram að lækkun á eignarskatti er alls 3,5 milljarðar kr. Þar af er lækkun á eignarskatti einstaklinga 2,1 milljarður kr. en hjá lögaðilum 1.362 millj. kr., sem eru inni í þessu. Það kemur jafnframt fram að eignarskattur lögaðila er helst í Reykjavík og á Reykjanesi en mig minnir að um 77% af fjárhæðinni hafi farið til Reykjavíkur og Reykjaness en rúm 20% á landsbyggðina.

Við stöndum frammi fyrir þeim staðreyndum, virðulegi forseti, að gefin hefur verið mjög röng og villandi mynd af því hverjum gagnast best þær lækkanir sem verið er að setja fram í eignarskattinum.

Ég vil draga upp það sem ég var að fá í hendurnar rétt áðan og er frá Landssamtökum eldri borgara (Gripið fram í.) af því að sagt er að eldri borgurum gagnist skattalækkunin best. Þeir gerðu athugasemd við það eins og fram kemur í blaði um daginn: „Skattalækkanir ekki í þágu eldri borgara“. Þeir segja í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Það er hins vegar lítið samræmi í því að hækka fasteignamat um 14% en boða aðeins 3% hækkun fríeignamarks vegna álagningar á næsta ári. Það leiðir til hækkaðs eignarskatts og annarra fasteignagjalda á því ári.“

Ég bað um útreikninga á þessu, og hvernig skyldu þeir koma út? Ég sé að hv. þm. Birkir J. Jónsson bíður spenntur.

Þeir koma svona út frá Landssambandi eldri borgara:

Árið 2002 er eign 8 millj. Fríeignamark var þá 9,4 millj. hjá hjónum þannig að þau greiddu engan eignarskatt á því ári. Árið 2005 er 8 millj. kr. eignin komin í 12 millj. Fríeignamarkið er 9,9 millj. hjá þessum hjónum. Eignarskattur er 12.204 kr. á næsta ári hjá þessu fólki sem er með eign upp á 12 millj., sem var 8 millj. árið 2002, vegna hækkunarinnar á fasteignamati. Enginn eignarskattur á árinu 2002, en þetta fólk greiðir vegna hækkunar á fasteignamatinu rúmar 12 þús. kr. í eignarskatt á næsta ári.

Það er ágætt að halda þessu til haga í eignarskattsumræðunni sem sýnir vel fram á að myndin er ekki svona mikil glansmynd fyrir fólk sem borgar eignarskatt, þ.e. skiptingin á því eins og hv. stjórnarliðar hafa haldið fram.

Ég vil þá víkja að vaxtabótunum og fer brátt að ljúka máli mínu, virðulegi forseti. Þar kemur náttúrlega fram að verið er að skerða vaxtabæturnar rétt eina ferðina enn. Það voru 600 millj. árið 2004 og við það bætist skerðing upp á 300 millj. á næsta ári. Þingmenn muna örugglega að við fórum í gegnum miklar umræður um aðgerðir ríkisstjórnarinnar á síðasta ári, hvernig hún ætlaði að fara í að lækka vaxtabætur. Þá var hart tekist á um það hvort um afturvirkni á skerðingu vaxtabóta væri að ræða sem gæti brotið í bága við stjórnarskrána. Hér er verið að fara svipaðar leiðir aftur.

Niðurstaða ríkisstjórnarinnar á síðasta ári var að grípa til þess ráðs að hafa flata skerðingu um 10%. Nú er skerðingin flöt upp á 5% og ég vitna til þess sem Eiríkur Tómasson sagði um þessa flötu skerðingu, síðast þegar við fórum í gegnum hvort verið væri að brjóta gegn stjórnarskránni. Ég vitna orðrétt i prófessorinn, með leyfi forseta:

„Þó er ekki unnt að útiloka að dómstólarnir telji að með þeim hætti að skerða vaxtabætur afturvirkt með þeim hætti sem gert er ráð fyrir, sé svo vegið að réttaröryggi þeirra sem fyrir skerðingunni verða að hún brjóti í bága við stjórnarskrána.“

Nú á að fara sömu leið aftur og ASÍ varar við því í umsögn sinni og segir ekki forsvaranlegt að skerða vaxtabætur afturvirkt og koma þannig í bakið á þeim sem standa þurfa við áður gerðar fjárskuldbindingar. Fólk hefur gert fjárskuldbindingar og byggt á greiðslumati þar sem vaxtabætur eru hluti af greiðsluáætluninni. Það er komið í bakið á þessu fólki og ekki hægt að bera það á borð að rökin fyrir því að skerða vaxtabætur séu þau að raunvextir hafi lækkað svo mikið á undanförnum mánuðum að eðlilegt sé að lækka það viðmið. Það eru rökin fyrir því að lækka vaxtabæturnar þegar nálægt 60 þúsund heimili í landinu eru enn með á bilinu 5,1–6% fasta vexti sem ekki er hægt að breyta. Þetta fólk nýtur ekki góðs af vaxtalækkuninni og þetta kemur að fullu fram sem skerðing, t.d. hjá þeim 60 þúsundum einstaklinga sem eru með lán hjá Íbúðalánasjóði. Við skulum hafa það í huga, virðulegi forseti.

Í lokin vil ég mæla fyrir breytingartillögu sem við fulltrúar Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd flytjum. Þar er um að ræða, af því að framsóknarmenn eru ófærir um það, að við viljum efna loforð framsóknarmanna, hjálpa þeim til þess. Það verður forvitnilegt að sjá hvort þeir taki ekki þátt í því með okkur við atkvæðagreiðsluna að greiða barnabætur til allra barna að 18 ára aldri. (BJJ: Hvað kostar það?) Við teljum (Gripið fram í.) að það sé sanngirnismál að öll börn fái slíkar barnabætur. (BJJ: Hvað kostar það?) Virðulegi forseti, út af þessum sífelldu frammíköllum og óróleika vil ég taka fram að tillögur okkar eru ekki kostnaðarsamari á næsta ári en þær tillögur sem stjórnarflokkarnir setja fram.

Við leggjum til að barnabætur greiðist öllum börnum að 18 ára aldri, hvort sem um er að ræða ótekjutengda hlutann þar sem aðeins er greitt með börnum að sjö ára aldri, að þar verði greitt til 18 ára aldurs og í tekjutengda hlutanum, sem barnabætur eru núna greiddar að 16 ára aldri, verði greitt til 18 ára aldurs. Miðað við barnabæturnar eins og þær eru í dag yrðu þetta sennilega tæpir 2 milljarðar kr.

Við teljum að slíkar ráðstafanir væru besta kjarabótin fyrir láglaunafólk sem lítið fær út úr þessum jólapakka ríkisstjórnarinnar. Við leggjum einnig til breytingu á virðisaukaskatti sem er rökrétt framhald af athugunum okkar á umliðnum missirum og árum á þróun matvælaverðs hér á landi. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur stúderað það mál vandlega og eftir þá yfirlegu teljum við bestu og skynsamlegustu leiðina, sem kæmi öllum vel, ekki síst lágtekjufólki, fólki með litlar tekjur, með lítið milli handanna sem greiðir hlutfallslega mikið af tekjum sínum í matvörur, að fara þá leið að lækka virðisaukaskattinn úr 14% í 7%. Við leggjum til að þetta taki gildi um mitt ár 2005 en að breytingar á barnabótum taki gildi 1. janúar 2005.

Ég skora á framsóknarmenn að skoða hug sinn fyrir atkvæðagreiðsluna milli 2. og 3. umr., hvort ekki væri skynsamlegra að flýta barnabótunum frekar en að byrja á því (Gripið fram í.) að bæta enn í vasana hjá þeim sem mest hafa fyrir. Er ekki skynsamlegra að fara þá leið, virðulegi forseti?

Ég hvet þingmenn til að skoða hvort ekki sé hægt að sammælast um að fara þessa leið. Hún er miklu sanngjarnari og eðlilegri í alla staði. Leiðin sem við viljum fara væri til þess að koma meiri jöfnuði og réttlæti inn í skattkerfið sem við búum við en ekki að hygla sífellt þeim betur settu. Við viljum líka að landið verði skattaparadís fyrir fólk með lágar tekjur og meðaltekjur, ekki bara skattaparadís fyrir efnameira fólkið í hugmyndafræði Péturs H. Blöndals.