131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:20]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs um fundarstjórn forseta af því að ég vil í fyllstu vinsemd benda á að í þessum sal, á hinu háa Alþingi, verður eitt yfir alla að ganga. Það verður að vera þannig að hv. þingmenn geti treyst því að fá að halda ræður án stöðugra frammíkalla eða samtala, ef þannig mætti lýsa því, án þess að forseti svo mikið sem nikki til þeirra höfði.

Eitt þarf yfir alla að ganga, hvar sem þeir eiga heima í flokki, stjórnarandstöðu eða stjórnarliða. Mér fannst framganga ákveðinna þingmanna í salnum undir ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur með ólíkindum. Ég er hissa á því, og segi það í fullri vinsemd, frú forseti, að forseti skuli ekki gera athugasemd við slíka framgöngu miðað við þá stjórn þingsins sem við höfum séð á síðustu vikum, mánuðum og missirum. Hér er eitthvert ósamræmi í gangi.

Ég fer fram á það við forseta þingsins að það verði rætt í hv. forsætisnefnd hvernig skuli stjórna fundum og hvernig skuli taka á frammíköllum og truflunum eða öðru því sem veldur því að hv. þingmenn geta ekki komið ræðum sínum til skila án þess að þurfa sífellt að sitja undir frammíkalli af aftasta bekk.