131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:26]

Siv Friðleifsdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Af þessu tilefni vil ég taka fram að ég tel að forseti hafi stjórnað fundi með ágætum. Ég tek hins vegar undir að það væri kannski ágætt að taka málið upp í forsætisnefnd. Það hefur tíðkast um nokkurt skeið að bæði þingmenn úr stjórnarflokkunum sem og stjórnarandstöðunni hafi verið að grípa fram í. Maður getur skoðað þingin í nágrannaríkjunum. Í Bretlandi kalla þingmenn t.d. mjög mikið fram í og í því felst ákveðinn kúltur eða menning. Í Noregi er aldrei nokkurn tíma kallað fram í og það er ekki til siðs. Hér er einhvers konar millistig.

Mér þykir það reyndar ágætt að einhver frammíköll séu. Það léttir stundum aðeins umræðuna en það á auðvitað ekki fara úr hófi þannig að ræðumenn geti ekki flutt ræður sínar nokkurn veginn án þess að þurfa að gera mikið hlé. Ég held að það væri ágætt að þetta yrði rætt í forsætisnefnd en mér þætti skaði ef hér væru engin frammíköll.

Ég held að það sé ágætisvenja að frammíköll séu leyfð að einhverju marki. En þá þarf auðvitað jafnt að ganga yfir alla, bæði stjórnarþingmenn og stjórnarandstæðinga.

Ég vil nýta tækifærið, fyrst ég er komin upp undir þessum lið, og benda á að mér finnst hafa borið við í umræðum á Alþingi seinni mánuði, skulum við segja, að þingmenn hafi notað mjög stór og þung orð í umræðum. Mér finnst það vera þinginu til vansa og ég held einnig að taka megi það upp í forsætisnefnd.