131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:35]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hún var yfirgripsmikil, ræða hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um ástandið í velferðarmálum hér á landi í dag. Mér var kennt það sem ungum manni að af verkunum eru menn dæmdir og hv. þingmaður sem kom upp áðan, Jóhanna Sigurðardóttir — og kom með geislabauginn svo að ég setji þetta í myndrænt form — þykist enga fortíð hafa í íslenskum stjórnmálum.

Við skulum dæma hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur af verkum hennar. Hver var samneysla í tíð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, Jóhönnu Sigurðardóttur, Guðmundar Árna Stefánssonar og Rannveigar Guðmundsdóttur þegar þau voru í ríkisstjórn? Samneyslan var 40% þá og nú tala menn um að hér sé ekki velferðarstjórn. Hver er samneyslan í tíð núverandi ríkisstjórnar? Samneyslan er þeir fjármunir sem við leggjum til sameiginlegra verkefna, til heilbrigðismála, félagsmála og annarra velferðarmála. Hún er 45% í dag, 5% hærri en í hinni svokölluðu velferðarstjórn kratanna hér á landi.

Hæstv. forseti. Eins og ég hef sagt var kjararýrnun frá árinu 1991 til 1995 þegar hv. þingmenn voru í stjórn. (Gripið fram í.) Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. félagsmálaráðherra þá, sló Íslandsmet. Hún lækkaði barnabætur til fjölskyldnanna í landinu um 12% á einungis fjórum árum, um heilan milljarð á sínum tíma. Núverandi ríkisstjórn kemst ekki með tærnar þar sem hún hafði hælana í þessum efnum. Hún sló þvílíkt met því þá var kjararýrnun almennt í samfélaginu. Síðan er komin ný stefna Samfylkingarinnar, hæstv. forseti, í skattamálum. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði áðan að lækkun skatta á fyrirtæki hefði bitnað á lágtekjufólkinu í landinu, þessi væri forgangsröð ríkisstjórnarinnar þannig að það er orðið ljóst að næsta skref Samfylkingarinnar í skattamálum er að hækka skatta á fyrirtækin í landinu.