131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:39]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmenn eigi að gæta stillingar hér í ræðustól. Það er óþarfi að fara af hjörunum þó að á stjórnarandstöðuna sé deilt hér.

Hv. þingmaður nefndi áðan af miklum tilfinningaþunga að 29 þús. einstaklingar í landinu væru með undir 100 þús. kr. á mánuði. Hverjir ætli þessir einstaklingar séu? Jú, að stærstum hluta eru þetta eldri borgarar, og ríkisstjórnin er með skattalækkunaráformum sínum að koma til móts við þennan hóp. Hv. þingmaður talar um að þetta sé eitthvert fólk sem búi í höllum úti í bæ. Ég ætla að minna hv. þingmann á það að þriggja herbergja íbúð hér í bæ kostar um 15 millj. kr. og það er mjög eðlilegt að eldri borgari í Reykjavík eigi þá íbúð skuldlausa. Hvað erum við að færa eldri konu í 15 millj. kr. íbúð á ári sem hefur kannski 1 millj. kr. í laun á ári? 60 þús. kr. raunaukningu á ráðstöfunartekjum á ári með því að fella niður eignarskattinn sem hv. þingmaður er á móti. Hv. þingmaður er á móti því að bæta kjör eldri borgara með þessum hætti.