131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:41]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður veit greinilega ekkert hverjir eru í þessum 29 þús. manna hópi sem ríkisstjórnin býr þau kjör að þurfa að borga 2 milljarða í skatta. Þetta eru 29 þús. manns sem eru með tekjur frá skattleysismörkum að 100 þús. kr.

Þetta eru ekki bara eldri borgarar. Þetta eru að stórum hluta líka öryrkjar og atvinnulausir. Það eru 5 eða 6 þús. manns atvinnulausir. Þetta eru að stórum hluta öryrkjar og þetta eru að stórum hluta aldraðir. Þið ættuð að skammast ykkar fyrir að búa þannig að þessu fólki að það þurfi að borga skatt. Þið skilið þessum hópum langminnstu í rúmlega 20 milljarða kr. skattalækkunarferli sem þið eruð að fara í. Þið ættuð að endurskoða hug ykkar til þess ef þið á annað borð viljið hafa hér þjóðfélag jöfnuðar og velferðar þar sem allir geti lifað við sómasamleg kjör. En því miður er það ekki þannig, virðulegi forseti, sem þessi ríkisstjórn stendur að málum. Hv. þingmaður fer enn rangt með tölur um eignarskattinn. Ég vitna bara til þess sem Landssamband eldri borgara segir. Eldri borgarar borga 12 þús. kr. í eignarskatt á næsta ári en borguðu ekkert á árinu 2002 miðað við ákveðin eignamörk.