131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:44]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstvirtur prófessorinn sagði að ekki væri hægt að útiloka það að þetta stæðist ekki stjórnarskrána, jafnvel þó að þið hefðuð breytt þarna um gír og þegar þingmennirnir ætluðu að ganga enn lengra í því að skerða vaxtabæturnar á sínum tíma.

Varðandi barnabæturnar er ég ekki að agnúast út í það að verið sé að gera betur fyrir þá sem hafa ótekjutengdar barnabætur. Ég var að lýsa því hver áhrifin af þessu yrðu og ég var líka að lýsa því að áhrifin væru ekki meiri en svo að sama hlutfall væri í ótekjutengda hlutanum eins og var áður, þ.e. í kringum 20%, meðan tekjutengdi hlutinn væri um 80%. Ég var fyrst og fremst að segja að það ætti að vera meira í ótekjutengda hlutanum en er núna. Ég vitnaði einmitt til þess að þegar við skoðuðum þetta voru ekki nema um 11% einstæðra foreldra með óskertar bætur og ekki nema 3% hjóna. Þess vegna kallaði ég þetta láglaunabætur en ekki barnabætur. Það er eiginlega staðreyndin sem við stöndum frammi fyrir og er auðvitað alvarlegt mál þegar svo er komið að skerðingin hefur verið svo mikil í barnabótum, um 10 milljarðar á 10 árum, og einungis hefur fjórðungi af því verið skilað til baka. Þá stöndum við frammi fyrir því að þetta eru ekkert annað en láglaunabætur, líka í tekjutengda hlutanum.

Ég vitnaði til þess hvernig þetta kæmi út eins og ríkisstjórnin áformar að hrinda því í framkvæmd. Það sem ég hef helst gagnrýnt í barnabótunum, virðulegi forseti, er að þetta komi ekki til framkvæmda fyrr en raun ber vitni, ekki fyrr en á árunum 2006 og 2007. Ég agnúast út í það aðallega varðandi barnabæturnar, að þið setjið ekki barnafólk í forgang heldur setjið það það aftast í röðina þegar kemur að því að lækka skatta.