131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[14:49]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Umræðan í dag um tekju- og eignarskatt hefur farið vítt um svið, enda eðlilegt þar sem við ræðum mál sem snertir alla landsmenn og hér er verið að uppfylla stærstu kosningaloforðin sem gefin voru í síðustu kosningum og við erum að sjálfsögðu ánægð með það.

Stærsta breytingin er lækkun tekjuskatts upp á 4% auk afnáms eignarskatts á einstaklinga og lögaðila. Einnig eru breytingar er varða hækkun á viðmiðunarfjárhæðum laganna og hækkun barnabóta.

Í upphafi vil ég segja að það er ekkert óeðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir á þessum lækkunum og takist á um þær enda er um gríðarlega stórt mál að ræða. Ástæða þess að ríkisstjórnarflokkarnir fara út í þessar aðgerðir er fyrst og fremst sú að við teljum að með þeim séum við að forgangsraða rétt. Sú forgangsröðun ætti ekki að koma neinum á óvart enda er hún í takt við kosningaloforð flokkanna fyrir síðustu kosningar.

Til að hægt sé að fara út í svona aðgerðir er að sjálfsögðu nauðsynlegt að hafa svigrúm til þess. Skuldir ríkissjóðs hafa lækkað um helming sem hlutfall af landsframleiðslu frá árinu 1995 og sú lækkun skilar sér í 11 milljarða kr. lækkun vaxtagjalda ríkissjóðs á ári. Sá möguleiki sem við höfum nú til skattalækkana hefur ekki sést í íslensku efnahagslífi fyrr en nú. En hver er þessi möguleiki? Jú, möguleikann skapar sá stöðugleiki sem hefur ríkt í efnahagsmálum. Hagvöxtur er mun meiri en annars staðar, atvinnuleysi miklu minna, kaupmáttur heimilanna hefur aukist og samkvæmt öllum spám um efnahagsmál sjáum við fram á að í lok kjörtímabils verði kaupmáttaraukningin orðin 55%, á tólf ára tímabili. Allt þetta ber vott um afar trausta efnahagsstjórn.

Eins og margir hafa rætt um tel ég mikilvægt að skattalækkanaáform séu sett fram með langtímaáætlun í huga. Meginþungi lækkananna kemur fram á árinu 2007 en þá er gert ráð fyrir að stóriðjuframkvæmdum verði að mestu lokið, alla vega miðað við áætlanir í dag. Þetta ætti að koma í veg fyrir niðursveiflu í efnahagslífinu á þeim tíma og tryggja áframhaldandi kaupmáttaraukningu heimilanna í landinu.

Ég tek þetta fram að gefnu tilefni, vegna þeirrar gagnrýni sem hefur komið fram á tímasetningu skattalækkana og menn vilja halda því fram að hún sé tengd við næstu alþingiskosningar. Það er ekki rétt, heldur eru menn að horfa á heildarsamhengið í efnahagsmálum.

Mig langar, virðulegi forseti, að gera matarskattinn að umræðuefni. Í umræðu í morgun komu fram ómakleg ummæli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um að Framsóknarflokkurinn væri að stoppa af lækkun virðisaukaskatts á matvælum. Þetta er ekki rétt og höfum við ótal sinnum reynt að leiðrétta hv. þm. Össur Skarphéðinsson varðandi þetta mál. Ríkisstjórnin hefur forgangsraðað, sú forgangsröðun er lækkun skatthlutfalls, hækkun persónuafsláttar, hækkun barnabóta og niðurfelling eignarskatts. Þetta útilokar þó alls ekki að við förum í breytingar á virðisaukaskattskerfinu enda kveður á um það í stjórnarsáttmála. En þetta eru þau skref sem mikilvægt er að stíga núna og það mun verða farið í vinnu við endurskoðun virðisaukaskattskerfisins eins og margoft hefur komið fram.

Hvaða áhrif hefur síðan lækkun matarskatts á ráðstöfunartekjur umfram allar þær aðgerðir sem ríkisstjórnin ætlar í? Ef við tökum upplýsingar um meðaltalsmatarútgjöld fjölskyldnanna í landinu, sem gefnar eru upp á vef Hagstofu Íslands kemur margt fróðlegt í ljós. Þó verður að hafa þann fyrirvara að ekki er hægt að nálgast á vefnum upplýsingar um matarreikninga ólíkra tekjuhópa. Við vitum þó fyrir víst að matarútgjöld fólks aukast þó nokkuð eftir því sem tekjur þess hækka.

Ef tekið er klassískt dæmi um hjón með börn þá eyða þau um 687 þús. kr. í mat og drykkjarvörur á ári, án alls virðisauka. 14% virðisauki af þeirri upphæð gerir rúmlega 700 þús. kr. alls. Sparnaður af því að lækka virðisaukaskatt um 7% er rúmlega 46 þús. kr. á ári eða 3.867 kr. á mánuði. Slík lækkun matarskatts gefur því álíka upphæð og lækkun endurgreiðslubyrða námslána.

Virðulegi forseti. Einn er sá hópur sem sjaldan er fjallað um í umræðunni um skattamál. Það er hópur einhleypra, þeirra sem búa einir. Ef við skoðum áhrif af lækkun matarskatts á þennan hóp þá er upphæðin orðin nokkuð rýr. Einhleypur einstaklingur eyðir samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni 217.168 kr. án virðisauka á ári. Þegar virðisauka hefur verið bætt við er upphæðin 247 þúsund og gefur því 7% lækkun virðisauka á ári einstaklingnum 15.203 kr. í vasann. Á mánuði er upphæðin heilar 1.267 kr.

Sami einstaklingur sem hefur árslaun upp á 3,5 milljónir fær út úr tillögum ríkisstjórnarinnar tekjuauka upp á 6,7% á ári eða 166 þús. kr. árið 2007, sem gerir 13.833 kr. á mánuði. Ef viðkomandi er að greiða af námslánum fær hann til viðbótar 35 þús. kr. á ári í ráðstöfunarfé vegna lækkunar á endurgreiðslu námslána. Þótt upphæðin í matarinnkaup þessa einstaklings væri hækkuð verulega þá kæmist þetta ekki nálægt tillögum ríkisstjórnarinnar í tekjuauka á ári hverju.

Tekjuauki skattaaðgerða ríkisstjórnarinnar er margfalt meiri en að lækka eingöngu virðisaukaskatt á matvælum. Við skulum ekki gleyma því að tillögur ríkisstjórnarinnar miða að því að koma ávinningum beint til fólksins án milliliða. Ef farið verður út í að lækka virðisaukaskatt á matvælum mun sú lækkun fara í gegnum sjóði smávöruverslunar í landinu áður en hún skilar sér til neytenda. Ríkisstjórnin hefur því valið þá leið að skila peningunum beint til fólksins.

Virðulegi forseti. Varðandi eignarskattinn hefur verið algengur misskilningur að einungis hátekjufólk og auðmenn greiði þann skatt. Ef við lítum á hverjir greiða þennan skatt kemur í ljós að 46% skattsins er greiddur af fólki 61 árs og eldra og meiri hlutinn af fólki sem er komið yfir sjötugt. Meginþunginn lendir á þeim sem hafa eina og hálfa milljón kr. í árstekjur eða minna og það eru ekki hin breiðu bök í samfélaginu.

En hver skyldi skýringin vera? Jú, margt eldra fólk býr eðlilega í skuldlausu eða skuldlitlu húsnæði. Þetta getur því ekki talist eðlilegur skattur þar sem eignirnar mynda í fæstum tilvikum tekjur en fólk hefur þurft að standa skil á skattinum af öðrum tekjum sem oft eru ekki miklar hjá eldri borgurum líkt og kom fram hjá Landssambandi eldri borgara í heimsókn hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Á sínum tíma þegar fjármagnstekjuskatturinn var tekinn upp skilst mér að víðtæk samstaða hafi verið um það hér að fella niður eignarskattinn. Eðlilegt var talið að skatturinn væri lagður á fjármagnið en ekki eignina sjálfa.

Virðulegi forseti. Hækkun barnabóta er áætluð um 2,4 milljarðar kr. Bæturnar hafa verið hækkaðar um 4,5 milljarða frá árinu 2000, sem er tvöföldun. Hækkunin nú kemur öllum barnafjölskyldum til góða.

Árið 1994 nam tekjuskerðing barnabóta með þremur börnum 18% auk þess sem 4% bættust við með hverju barni umfram það. Skerðingarmörk tekna námu 570 þús. kr. á ári fyrir einstætt foreldri. Samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að tekjuskerðing barnabóta geti aldrei orðið hærri en 8% og að skerðingarmörk tekna hækki um 50% frá því ári, í 1.116 þús. kr., eða verði tvöfalt hærri en árið 1994. Dregið er verulega úr tekjutengingu í sambandi við barnabæturnar en hún var orðin allt of mikil. Við fórum þá leið að hækka bæturnar verulega fyrir yngstu börnin eða um 45%. Einnig var valið að draga úr tekjutengingum því það kemur sér best fyrir fjöldann.

Mig langar í þessu tilliti, virðulegi forseti, að minnast á hve fróðlegt er að skoða stefnuskrá Samfylkingarinnar, en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Annars vegar hyggst Samfylkingin minnka skattbyrði og draga verulega úr jaðarskerðingum hjá millitekjufólki, sérstaklega barnafólki sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið.“

Virðulegi forseti. Þetta þykir mér afar fróðlegt að lesa, sérstaklega í ljósi umræðu hv. þingmanna Samfylkingarinnar um tillögur okkar í skattamálum. Hvað erum við að gera annað en þetta? Við erum að minnka skattbyrði, við erum að draga úr jaðarskerðingum og við erum sérstaklega að hjálpa barnafólki sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Þetta gæti ekki farið betur saman.

Svo að við höldum áfram þá lofaði Samfylkingin í kosningabaráttunni að lækka skatta. Tillögur hennar voru sagðar kosta ríkissjóð allt að 20 milljarða kr. en líklega hefði sú upphæð orðið mun hærri. (Gripið fram í: 16.)

En hvað gerist nú? Samfylkingin slær úr og í og svo virðist sem skattalækkunarloforðin hafi verið numin úr gildi sem stefna Samfylkingarinnar strax eftir kosningar.

Eins og ég sagði áðan slær Samfylkingin úr og í í skattamálum. Það er engin leið að átta sig á því hvað flokkurinn vill í dag. Kannski vill hv. þm. Össur Skarphéðinsson upplýsa hér og nú hvað símastrákurinn heitir sem sagði fyrir kosningar að flokkurinn vildi ekki lækka matarskattinn. Það væri mjög æskilegt ef þessi símastrákur Samfylkingarinnar gæfi sig fram því að hann virðist vera eini samfylkingarmaðurinn sem getur talað hreint út um skattamálin og svarað því vafningalaust hvað flokkurinn vill gera. Það hefur annar strákur úr Samfylkingunni verið í umræðunni sem hefur verið nefndur götustrákur. Það er kannski hugsanlegt að þetta sé sami maðurinn.

Ég minni á að nýlega spurði fréttamaður Stöðvar 2 hv. þm. Össur Skarphéðinsson hvort hann hefði lofað skattalækkunum og spurði hvort hann hefði ekki ætlað sér að standa við þær, hvað Össur Skarphéðinsson hefði gert.

Formaður Samfylkingarinnar svaraði þessu, með leyfi forseta:

„Ég hugsa að ef að aðstæður hefðu boðið upp á það ... hefðum við notað töluvert af því svigrúmi sem að kann að skapast ... til þess að lækka skatta.“

Virðulegi forseti. Þetta eru mjög sérstök ummæli í ljósi þess sem stendur í Morgunblaðinu 12. apríl 2003 og vitna ég aftur til hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fyrsta verk Samfylkingarinnar eftir kosningar verður því að leggja fram frumvarp um tafarlausa hækkun á skattfrelsismörkum.“

Ég segi bara, virðulegi forseti: Hvers lags samhengi er þetta? Má ég biðja hv. þm. Össur Skarphéðinsson um að gefa okkur samband við símastrákinn svo við getum áttað okkur á því hvað hann er að fara og fyrir hvað Samfylkingin stendur í skattamálum?

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt í umræðunni að horfa á heildarmyndina. Við vitum að ef hv. stjórnarandstaða hefði verið í ríkisstjórn síðustu ár værum við ekki að horfa upp á þetta svigrúm til skattalækkana. Það þarf ekkert að fjölyrða neitt um það mál. Meginástæðan er sú að það eru aukin umsvif í atvinnulífinu og á ég þá sérstaklega við stóriðju og virkjanaframkvæmdir. En samhliða þeim hefur verðmætasköpun í landinu vaxið gríðarlega og við höfum það svigrúm sem við þurfum til að koma tekjuaukanum til fólksins í landinu.