131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:07]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir talar um skuldsetta unga fólkið. Ég held að þetta sé nákvæmlega hópurinn sem hæstv. ríkisstjórn horfir til um þessar mundir. Hvað horfum við fram á? Vextir í landinu eru að lækka. Við viljum meina að kosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar um að koma á 90% húsnæðislánum eigi verulega stóran þátt í því. Ég held að þetta tækifæri fyrir unga fólkið að geta endurfjármagnað lánin sín og lækkað greiðslubyrðina sé alveg gríðarlega stórt mál fyrir ungt fólk, af því að hv. þingmaður talaði um skuldsett ungt fólk.

Lækkun endurgreiðslubyrði námslána hittir nákvæmlega (Gripið fram í.) í mark hjá ungu fólki. Við verðum að horfa á heildarmyndina, við verðum að horfa á allar aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar og þetta er hluti af þeim.