131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:10]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir svarið. Þetta er ákaflega mikilvægt og er það sem við vitum með breytinguna á eignarsköttum.

Hv. þingmaður talar um að þeir sem borga mestu skattana fái mesta lækkun. Það er auðvitað rétt. Landsbyggðarbúar borga nefnilega allt öðruvísi skatta en höfuðborgarbúar. Við borgum m.a. skatta af flutningum og flutningsstarfsemi og þeir eru mjög háir. Eignarskattslækkunin sem verið er að tala um mun gagnast höfuðborgarbúum upp á 1.700 millj. kr. meðan íbúar Norðausturkjördæmis munu lækka í eignarskatti upp á 122 millj. kr., vegna tekjuársins 2003.

Þetta er ákaflega mikilvægt og þess vegna segi ég: Þær aðgerðir sem hér eru gagnast ekki landsbyggðarbúum vegna þess, eins og hv. þm. sagði áðan, að landsbyggðarbúar borga ekki háa eignarskatta vegna þess að, eins og byggðastefnan hefur verið rekin, eignir eru lágt skrifaðar. Þess vegna græða landsbyggðarbúar ekki á þessu. (Forseti hringir.)

En hv. þingmaður gat um hina háu skatta, (Forseti hringir.) það er flutningskostnaður. Þess vegna spyr ég: Kom ekki til tals að gera eitthvað fyrir (Forseti hringir.) landsbyggðarbúa eins og með lækkun skatta af flutningastarfsemi?