131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:15]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta fer að verða fastur liður hjá mér og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að kíta um matarskattinn, en hann hefur greinilega ekki tekið alveg nógu vel eftir því sem ég sagði í ræðu minni um að við værum búin að forgangsraða en ef svigrúm skapast er mjög eðlilegt að farið verði í matarskattslækkanir. Það er bara ákveðin vinna sem þarf að vinna áður. Það stendur í stjórnarsáttmála að það eigi að endurskoða virðisaukaskattskerfið. Við höfum aldrei gefið út að við séum á móti því að lækka virðisaukaskatt af matvælum, það er útúrsnúningur.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson segir að það eigi að vera forgangsmál. Ég ítreka þær tölur sem ég fór með í ræðu minni áðan, hvort það sé virkilega forgangsatriði hjá Samfylkingunni að t.d. einhleypur einstaklingur fái um 1.300 kr. á mánuði í vasann vegna lækkunar matarskatts, en aðgerðir okkar gefa honum 14 þús. kr. Þá tökum við ekki inn í ef viðkomandi hefur ákveðið að ganga menntaleiðina og greiðir af námslánum, (Gripið fram í.) þá eru þetta um 3 þús. kr. til viðbótar á mánuði.

Ég tel afar einkennilega forgangsröðun að ætla að raða þessu svona og ítreka að forgangsröðun hæstv. ríkisstjórnar liggur fyrir. Það er lækkun skatthlutfalls, hækkun persónuafsláttar, hækkun barnabóta og niðurfelling eignarskatts. Ég tel að það sé algjör óþarfi hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að hafa áhyggjur af Framsóknarflokknum þó við kunnum að meta velvild hans í garð flokksins. Við höfum ekki farið neitt af leið og tel ég þetta vera mikla jöfnunaraðgerð.