131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:18]

Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum komin á þann tímapunkt að hafa verulegar áhyggjur af málflutningi Samfylkingarinnar. Það virðist ekki skipta nokkrum sköpuðum hlut þó við komum öll upp aftur og aftur í andsvör til að leiðrétta hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Við erum ekki á móti lækkun matarskatts. (Gripið fram í.) Nei, það er ekki rétt, hv. þingmaður. Ég held að það sé ekkert hægt að koma upp aftur og aftur — þetta virðist ekki ætla að komast inn hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og vonandi veit fólk betur.

Ég vil rétt í lokin, virðulegi forseti, skerpa á því, vegna þess að hv. þm. Össur Skarphéðinsson talar um jöfnunaraðgerð, að í tíð Alþýðuflokks í ríkisstjórn árin 1991–1995 þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson var ráðherra lækkuðu barnabætur um 1 milljarð eða um 12%. Ég held (Gripið fram í.) að hv. þm. Össur Skarphéðinsson ætti að hafa það hugfast.