131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:29]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Gunnar Örlygsson hélt hér mikla og þrumandi ræðu og spyr í hvaða veruleika við séum. Ég vil þá spyrja hann á móti: Í hvaða veruleika er hann? Við erum að ná fram helsta baráttumáli okkar, sjálfstæðismenn, að lækka skatta og það er auðvitað sárt fyrir stjórnarandstöðuna að horfa upp á það að við göngum þannig frá þeim málum að við erum að lækka skatta öllum þorra almennings til góða.

Ég tók dæmi í morgun, af því hv. þingmaður var með aldraða í sínu dæmi, um einstakling sem aðeins er með ellilífeyri eða 1 millj. kr. í tekjur á ári og býr skuldlaus í eigin íbúð sem kostar um 20 millj. kr. Fyrir skattbreytinguna greiðir þessi einstaklingur 42 þús. kr í tekjuskatt og útsvar og 90 þús. kr. í eignarskatt. Eftir breytinguna er enginn skattur. Skatturinn er núll. Árleg aukning ráðstöfunartekna er 133 þús. kr. eða um 16%.

Ég vildi gjarnan taka hér eitt dæmi sem var í Fréttablaðinu, þ.e. að fjögurra manna fjölskylda getur klætt sig og skætt í heilt ár. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Hjón með tvö börn undir sjö ára aldri og 400 þúsund krónur í mánaðartekjur fá 400 þúsund króna ávinning af skattabreytingum ríkisstjórnarinnar þegar þær verða komnar að fullu til framkvæmda árið 2007. Inni í þessum 400 þúsund krónum er minni staðgreiðsla upp á rúmlega 244 þúsund krónur og hærri barnabætur sem nemur 156 þúsundum króna.

Fyrir 400 þúsund krónurnar getur fjölskyldan skætt sig og klætt í heilt ár, eða fyrir sem nemur 279 þúsundum króna. Að auki getur hún keypt húsgögn og heimilisbúnað …“ (Forseti hringir.) Er þetta ekki ágóði fyrir almenning?