131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:31]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. spyr í hvaða veruleika ég sé. Ég er í þeim veruleika að tala við fólkið í landinu, virðulegi forseti. Ég kom inn á það í ræðu minni að ég gleddist yfir því að rými væri til skattalækkana. Ég kom inn á það í ræðu minni líka að til þess að tryggja að þetta rými sé til þarf að auka veg atvinnuveganna í landinu.

Ég kom inn á það í ræðu minni áðan, og beini þá orðum mínum til hv. þm., að ég hef rætt við fólk í landinu, fólk sem er með álíka há laun og sá sem hér stendur og hv. þingmaður sem kom í andsvör við mig. Þvert á hagsmuni þeirra hafa viðmælendur mínir frekar viljað fara þá leið að hækka skattleysismörkin heldur en að eyða 16 milljörðum í að lækka tekjuskattsprósentuna. Þvert á hagsmuni þeirra, virðulegi forseti. Hvernig stendur á þessu? Getur verið að þetta fólk búi yfir réttlætiskennd? Getur verið, virðulegi forseti, að þetta fólk hafi samhug og sé ekki sama um þá efnaminni sem búa í landinu? Getur verið að þetta fólk umgangist á stundum efnaminna fólk í landinu? Getur það verið, virðulegi forseti, að stjórnarflokkarnir sem hafa verið hér við völd nú á annan áratug séu svo einangraðir frá íslensku samfélagi að þeir sjá ekki vandann í þjóðfélaginu? Er það hugsanlegt, virðulegi forseti? Ég leyfi mér að spyrja.

Hv. þingmaður víkur að eignarskattinum og þeim áhrifum sem hann hefur á kjör eldri borgara. Ég vil minna hv. þingmann á eitt að spár um hækkun á fasteignaverði eru 14% fyrir næsta ár. Mun afnám eignarskattsins taka gildi á næsta ári, virðulegi forseti? Nei, það mun ekki gera það. Með öðrum orðum: Eldri borgarar hér á landi munu greiða hærri eignarskatt fyrir árið 2005 en þeir gerðu fyrir árið 2004.