131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:34]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alltaf hægt að hreykja sér hátt og tala niður til annarra að þeir umgangist ekki fólkið í landinu. Við umgöngumst fólkið í landinu alveg eins og hv. þingmaður gerir, a.m.k. geri ég það. Hann talaði um að efla þyrfti fyrirtækin í landinu og það hefur Sjálfstæðisflokkurinn svo sannarlega gert undanfarin ár og hefur verið víttur fyrir það í sölum Alþingis. Við höfðum meira að segja forgöngu um að skapa atvinnulífinu samkeppnisfært umhverfi með því að lækka tekjuskatt úr 50% í 30% og síðan í 18%. Starfsemi fyrirtækja hefur blómstrað. Þau geta gert betur en áður við starfsmenn sína og auk þess skilað ríkissjóði meiri tekjum en þau gerðu áður. En núna er komið að hinu venjulega launafólki. Nú er búið að lögfesta afnám sérstaks tekjuskatts, hinn svokallaða hátekjuskatt sem sumir vilja hækka enn meira, hann hefur bitnað harðast á þeim sem hafa þurft að bæta við sig vinnu af einhverjum ástæðum. Þar má nefna ungt fólk sem er að koma yfir sig húsi og er að stofna fjölskyldu. Þetta er venjulegt fólk sem er að eignast íbúðir. Þó að eignarskatturinn verði ekki afnuminn fyrr en í lok næsta árs, verður hann kominn á núll árið 2006. Það skiptir mestu máli.