131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:37]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður gat þess að 30 þúsund manns væru undir fátæktarmörkum og ber hag þess fólks fyrir brjósti. Ef þetta fólk bætir tekjur sínar, segjum að það með þrjú börn, og býr við húsaleigu, þá skerðast húsaleigubæturnar um 12%, þá skerðast barnabæturnar um 9%, og vaxtabætur ef það eru ekki í leiguhúsnæði um 7%. Ef það hefur verið námsfólk skerðast tekjurnar um 4,75% vegna endurgreiðslu af námslánum. Þetta er það sem menn kalla fátæktargildrur. Við erum að minnka þetta. Við erum að minnka þennan þröskuld og svo kemur að sjálfsögðu 38% skattur ofan á. Við erum að minnka þennan þröskuld um 4% í skattinum, 1% í barnabótunum, 1% í námslánunum. Við erum að lækka þetta. Við erum að gera þessu fátæka fólki kleift að hætta að vera fátækt. Það er markmiðið. Taka burtu þær girðingar sem loka fólk inni í fátæktargildrum.

Hv. þingmaður talaði líka um aldraða. Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu greiða um 16 þúsund aldraðir eignarskatt. 10 þúsund af þeim eru með undir einni og hálfri milljón í tekjur á ári. Það er mjög þungbært að vera með lágar tekjur og borga eignarskatt af eign sem menn eiga. Ég vil nefna sem dæmi, af því að ég þekki líka fólk, að ef annað hjóna deyr og þau eiga venjulega íbúð, bara ósköp venjulega íbúð, lendir hinn aðilinn í því að eiga alla eignina ef hann situr í óskiptu búi. Þá er hann allt í einu orðinn svo auðugur að hann fer að borga eignarskatt. Ég held að eignarskatturinn sé mjög óréttlátur.