131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[15:42]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held þetta sé að koma heim og saman hjá hv. þingmanni, að ræða mín sé að birtast honum loks núna í öðru andsvari. Mér fannst á köflum í fyrra andsvari hv. þingmanns eins og hann hefði hreinlega ekki hlustað á ræðu mína.

Ég var ekki að deila á eignarskattinn og ég var ekki að deila á barnabæturnar. Ég var að deila á framkvæmdina á tekjuskattinum. Ég talaði um fátæktaraukningu í landinu og 30 þúsund einstaklinga sem búa við aum kjör. Nú er hv. þm. Pétur Blöndal þekktur fyrir stærðfræðikunnáttu sína og það er kannski óréttlátt af mér að leggja fyrir hann spurningu vegna þess að hann kemst ekki aftur í andsvar, en ég vil þó alla vega kenna honum þau fræði, að ef menn hækka persónuafsláttinn hjá því fólki sem er með 110 þús. kr. eða minna í tekjur á mánuði, (Gripið fram í.) þá munar það 10 þús. kr. í peningum í vasann á mánuði fyrir þetta sama fólk. Ef aftur á móti leið hans verður valin, sem er að lækka tekjuskattinn um 4% á nokkrum árum, þá mun það muna þetta fólk um u.þ.b. þúsundkall. Eru það ekki kjarabætur sem við boðum í Frjálslynda flokknum umfram það sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn gera í dag, virðulegi forseti? Ríkisstjórnarflokkarnir vilja færa þessu fólki þúsund krónur á mánuð á meðan Frjálslyndi flokkurinn, með sinni einföldu skattastefnu, vill færa þessu fólki 10 þús. kr. á mánuði til tekjujöfnunar í landinu.