131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:05]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vissulega er verið að hækka skatta, sagði hv. þingmaðurinn, og ég tek undir það. Til dæmis voru þeir að hækka brennivínsskattana og auka þannig forræðishyggjuna hér í samfélaginu með alveg fáheyrðum og fáránlegum hætti að mínu mati. Þessi afskipti stjórnvalda í gegnum verðlag af því hver drekkur hvað eru náttúrlega fáránleg og undrunarefni að jafnfrjálslyndur maður og hv. þm. Birgir Ármannsson skuli láta hvarfla að sér að standa að slíkri undarlegri forræðishyggju.

Aftur að eignarsköttunum sem koma vel til greina að mínu mati sem og það að hækka fríeignamarkið. Sem dæmi um skattinn er lækkun á eignarskatti alls tæplega 3,5 milljarðar og þar af er lækkun á eignarskatti á lögaðila, sem sagt fyrirtæki, 1.362 millj.

Er ekki nóg búið að lækka álögurnar á fyrirtækin í gegnum lágan fjármagnstekjuskatt? Er ekki óþarfi að vera að hygla fyrirtækjunum og hinum ofsaríku með því að afnema eignarskatt af öllu?