131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:06]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi það í ræðu minni áðan að eignarskattur á fyrirtæki er nánast óþekktur í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Margoft hafa Samtök atvinnulífsins bent á að það væri mikil hreinsun af því að losna við þennan skatt til að bæta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs í samanburði við fyrirtæki í öðrum löndum. Þetta er atriði sem hefur m.a. áhrif á það hvar fyrirtæki staðsetja sig. Þetta skiptir máli af þeim sökum. Þess vegna undrast ég að hv. 7. þm. Suðurk. skuli gera lítið úr þessari mikilvægu breytingu. Hún er kannski ekki svo stór í milljörðum talið en hún skiptir máli fyrir fyrirtækin í landinu.

Varðandi hina ofsaríku sem nefndir voru hygg ég að hinir ofsaríku séu þeir sem alltaf finna sér leiðir til að bjarga sér hvert sem skattkerfið er. Staðreyndin er sú að þegar stjórnmálamenn hafa samið reglur sem ætlað er að ná í peninga frá hinum ofsaríku hafa hinir ofsaríku yfirleitt sloppið en byrðarnar lent á venjulegum launþegum, (Forseti hringir.) venjulegu millitekjufólki og launþegum í landinu.