131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:17]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Umræðan sem hefur farið fram í dag hefur verið nokkuð áhugaverð og af viðbrögðum hv. þingmanna að dæma sýnist mér áhugi fyrir þeirri ræðu sem hér á að fara að flytja vera talsverður því þegar hafa menn óskað eftir andsvari.

Mig langar að hefja mál mitt á hugmyndum sem fram komu hjá hv. síðasta ræðumanni, Birgi Ármannssyni, sem talaði einmitt um að núna væri tíminn til þess að ráðast á útgjöld ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu. Núna væri tíminn til þess að snúa til baka, núna væri tíminn til þess að beita aðhaldi, núna væri tíminn til þess að ráðast í niðurskurð, núna væri tíminn til þess að taka á. Núna skyldu gömlu hugmyndir ungliðahreyfingar sjálfstæðismanna fá byr undir báða vængi. Núna væri stóra stundin runnin upp sem ungliðarnir hafa virkilega beðið eftir.

Ég ætla að leyfa mér að orða það þannig að mér þykir ekkert skrýtið þó að hv. þingmanni þyki sem nú sé stundin runnin upp, að núna verði horfið af hinni miklu útgjaldaleið og hinni miklu þenslu ríkisins sem hefur verið undanfarin ár. Mér finnst það ekkert skrýtið vegna þess að í Morgunblaðinu 6. desember sl. segir, með leyfi forseta:

„Útgjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu fóru í 35,4% í fyrra og hefur útgjaldahlutfallið ekki verið hærra“ (Gripið fram í.) — hér er bara verið að tala um útgjöld ríkisins — „a.m.k. frá árinu 1980.“

Með öðrum orðum hefur útgjaldahlutfall ríkisins ekki verið hærra sem hlutfall af landsframleiðslu í 25 ár. Það er því afar eðlilegt að hv. þm. Birgir Ármannsson telji að nú sé stóra stundin runnin upp, nú sé tími afrekanna því þegar maður er staddur á botninum í sundlauginni er svo líklegt að leiðin geti aðeins legið upp á við. Hér hefur komið fram og ekki vitnað í aðra en sjálft málgagnið Morgunblaðið, sem hefur upplýsingar sínar úr peningamálum Seðlabankans, sem segir að í 25 ár hafi ríkisútgjöld ekki verið meiri sem hlutfall af landsframleiðslu. (Gripið fram í: Opinber útgjöld.) Hér stendur hlutfall ríkisins af landsframleiðslu. Ég skil því vel að nú finnist hv. þm. Birgi Ármannssyni að stundin sé runnin upp, nú fái hugsjónir ungliða Sjálfstæðisflokksins byr undir báða vængi. Nú sé tíminn, nú sé staðurinn, nú sé stundin. (Gripið fram í.) Núna skuli tekið á því.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins opna umræðuna á þessu vegna þess að það einfaldar kannski hlutina þegar á líður.

Hins vegar er ég sammála hv. þm. Birgi Ármannssyni sem var með dálítinn innblástur áðan, að auðvitað á að reyna að ræða hér um grundvallaratriði þegar verið er að ræða skattapólitíkina, það skiptir miklu máli. Í skattahugmyndunum birtast fyrst og fremst grundvallarhugmyndir Sjálfstæðisflokksins og náttúrlega ríkisstjórnarinnar í heild sinni. Þær ganga út á að verið er að lækka — sérstaklega er ég að tala um tekjuhliðina — tekjuskatt um 4% næstu þrjú árin. Menn hafa farið vandlega yfir það að verið er að minnka byrðar hjá þeim sem meira hafa en síður verið að minnka byrðar hjá þeim sem minna hafa. Þetta er að mörgu leyti hægri skattapólitík og alls ekkert óeðlilegt að þær hugmyndir komi frá hæstv. ríkisstjórn. Hugmyndirnar eiga til að mynda á þessu ári og því næsta, 2004 og 2005, sem er ágætt að miða við, þá munu þessar hugmyndir, þ.e. skattalækkanir, leiða til skattalækkana upp á eina 5 milljarða. Skattalækkanirnar koma mjög misjafnt niður, þær eru betri fyrir þá sem meira mega sín en síðri fyrir þá sem minna hafa, þetta er því að mörgu leyti eðlileg hægri pólitík.

Það sem er svo sérstakt er sú staðreynd sem ég ræddi um áðan, að ríkið hefur aldrei verið stærra í hvaða hlutfalli sem er. Ríkið hefur því stækkað alveg ógurlega og mun stækka áfram á næsta ári. Þetta er því einhvers konar sambland af hægri pólitík með einhvers konar kommúnísku ívafi. Þetta er einhvers konar geðklofi sem er afar erfitt að átta sig á og þess vegna kann að vera talsvert erfitt að átta sig á hver hin raunverulega pólitík núverandi ríkisstjórnar er. (Gripið fram í: Framsóknarpólitík.) Framsóknarpólitík er kallað fram í, ég leyfi mér að draga í efa að sá flokkur hafi sett stærstu fingraför sín á þessar hugmyndir en hann fylgir a.m.k. með.

Skattalækkununum er einnig ætlað að mæta á annan hátt. Það er ekki verið að draga saman seglin hjá ríkissjóði, það er ekkert í þá veruna, heldur eru menn að lækka skatta hjá þeim sem meira mega sín en á móti kemur að menn eru að hækka alls konar álögur, notendagjöld, komugjöld á heilsugæslu o.s.frv., sem í reynd mun skila 8 milljörðum til ríkissjóðs á árunum 2004 og 2005. Ég er að tala um þau ár þegar ég fer með þessar tölur þannig að það velkist enginn í vafa um það.

Þetta er voðalega svipuð þróun og við höfum séð í Bandaríkjunum, sem reyndar hefur birst meira í því að fjárlagahallinn hefur vaxið frá ári til árs og kannski skýrir það að einhverju leyti stöðu dollarans í veröldinni.

Ég vil draga það fram að menn eru að lækka skatta, menn eru að minnka byrðar hjá þeim sem meira hafa, síður hjá þeim sem minna hafa en þenja ríkisvaldið út að öðru leyti. Í þessu birtist kannski þessi geðklofi sem ég var að vísa til.

Þá vil ég einnig vísa til þess að skattbyrðin hefur áfram aukist hjá þeim sem minna mega sín vegna þess að skattleysismörkin hafa hvorki fylgt með verðlagsþróun né launaþróun. Það þýðir að af hverri krónu sem launin hækka er ríkið alltaf að taka meira og meira til sín af því að skattleysismörkin fylgja ekki með. Við hljótum að spyrja eins og við höfum spurt ítrekað: Hvers vegna eru gjaldstofnar og skattstofnar verðtryggðir en ekki viðmiðunarfjárhæðir og bótafjárhæðir? Við hljótum að vekja upp þessar spurningar af því að menn hljóta að reyna að gæta einhvers jafnræðis í þessum málum. Menn spyrja einnig: Af hverju þarf ríkið að taka meira til sín en sem nemur hugsanlegri tekjuaukningu einstaklingsins og launþeganna, einfaldlega vegna þess að skattleysismörkin fylgja hvorki launaþróun né neysluvísitöluþróun? Þetta finnast mér vera grundvallarspurningar sem nauðsynlegt er að fá svör við.

Mér sýnist að ég hafi ekki tekið með mér þær töflur sem ég hafði hugsað mér að taka með mér í pontu, en ég er þó með hluta af þeim. Óhjákvæmilega verðum við að fara yfir það hvernig tilfærslan á sér stað og við höfum dregið það fram mjög skýrt í umræðunni hvað menn hafa verið að gera. Menn hafa verið að lækka skattana en á móti kemur að menn ætla að leggja 140 millj. álögur á nemendur í formi hækkaðra skólagjalda. Menn eru því að færa þetta til, þetta eru orðin meiri notenda- og þjónustugjöld en að allt sé fjármagnað úr sameiginlegum sjóðum. Ríkið er að taka meira til sín, en með öðrum hætti. Við höfum sett þá gagnrýni fram vegna þess að við teljum að með því móti sé ekki verið að nota skattkerfið sem það jöfnunartæki sem við viljum sjá það vera. Þar skilur á milli okkar og Sjálfstæðisflokksins.

Ég get haldið áfram að rekja gjöldin sem reyndar nokkrir hv. þingmenn hafa gert, en niðurstöðutölur þeirra eru að ríkissjóður nettó er að taka til sín í þjónustu- og notendagjöldum og öðrum gjöldum 2,5 milljarða umfram það sem hann lækkar skatta á árunum 2004 og 2005. Þetta er sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir.

Varðandi útgjaldaaukningu ríkisins sögðu svo til allir hagfræðingar sem komu á fund efnahags- og viðskiptanefndar að aðhaldið í ríkisfjármálum væri ekki sem skyldi, þeir töldu allir og voru sammála um að lágmarksafgangur af fjárlögum væru a.m.k. 4% af landsframleiðslu, sem er á bilinu 34–36 milljarðar kr. Það töldu menn lágmark til þess að, eins og þeir kölluðu það, geta mætt því þegar hagsveiflan leiðréttist af sjálfu sér. Það væri afgangurinn sem þyrfti að vera því að þeir 30–40 milljarðar tekna sem kæmu umfram það væru vegna tímabundinnar hagsveiflu og að það muni verða mjög erfitt fyrir ríkissjóð að mæta þeirri niðursveiflu þegar þar að kemur nema menn taki á því strax.

Menn töldu þannig að aðhaldið og aðhaldsleysið væri einn af stóru þáttunum í því að Seðlabankinn varð að hækka stýrivexti um 1% með afleiðingum sem menn hafa séð á gjaldeyrismarkaði undanfarna daga og með tilheyrandi afleiðingum fyrir útflutningsgreinarnar. Ég sá að Samtök atvinnulífsins meta þann skaða upp á 15 milljarða kr. eða svo. (Gripið fram í: Og var það út af skattabreytingum?) Nei, það var vegna aðhaldsleysis ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum, ekki síst.

Virðulegi forseti. Ég kom í ræðustól fyrst og fremst til að draga þetta fram. Það er grundvallarmunur á skattapólitík ríkisstjórnarinnar og þess hvernig við lítum á skattkerfið. Við lítum fremur á skattkerfið sem jöfnunartæki meðan ríkisstjórnin telur að sé hægt að nota það til að létta byrðar þeirra sem meira mega sín og færa síðan tekjurnar út í notenda- og þjónustugjöld. (PHB: Ég hef heyrt þetta áður.) Enda breytast ekki viðhorfin frá degi til dags eins og hjá hv. þm. Pétri Blöndal sem gjammar hér örlítið fram í. Í því sambandi er ágætt að rifja upp að hann gaf sig á sínum tíma út fyrir að vera riddari skattalækkana. Nú er hann formaður efnahags- og viðskiptanefndar og kannski annar tveggja sem mesta ábyrgð bera á því að útgjöld ríkissjóðs, sem hlutfall af landsframleiðslu, hafa ekki verið hærri frá árinu 1980. Þá var reyndar einnig sjálfstæðismaður í forustu fyrir ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Já, það var sjálfstæðismaður í forustu fyrir ríkisstjórn, en ekki hvað? (GÞÞ: Það var vinstri stjórn.) Gunnar Thoroddsen. (BjörgvS: Var hann í Alþýðubandalaginu?) Ég ber það mikla virðingu fyrir Gunnari Thoroddsen heitnum að ég ætla ekki að kallast á við þingmenn um hann.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir þau sjónarmið sem ég vildi að kæmu fram við þessa umræðu. Ég hef dregið fram að það er voðalega erfitt að átta sig á pólitík ríkisstjórnarinnar í heild fyrir utan það að þar birtist annars vegar hægri pólitík í formi þessara skattalækkana en á móti kemur einhvers konar kommúnískt ívaf þannig að ríkissjóður bólgnar út frá ári til árs og hefur aldrei tekið til sín stærra hlutfall. Þetta vildi ég draga fram, virðulegi forseti, og taldi mikilvægt innlegg við þessa umræðu hér. Að öðru leyti vil ég taka undir þau sjónarmið sem komið hafa fram hjá öðrum félögum mínum í efnahags- og viðskiptanefnd, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.