131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:34]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var að mörgu leyti kostuleg ræða hjá hv. þingmanni og ekki farið rétt með. Árið 1981 var t.d. vinstri stjórn við völd, eins og allir vita sem eitthvað þekkja til. Á sama hátt hefur það verið upplýst í þessari umræðu að útgjöld ríkissjóðs lækka sem hlutfall af vergri landsframleiðslu nái fyrirætlanir stjórnarinnar fram að ganga og sömuleiðis skatttekjur ríkissjóðs.

Hvað sem því líður er ekki rosalega langt síðan við vorum í kosningabaráttu, virðulegi forseti. Þá fóru þingmenn Samfylkingarinnar, þáverandi frambjóðendur, og lögðu mikla áherslu á að lækka jaðarskatta. (PHB: Það var þá.) Það var lykilatriði. Þá er ég ekki að tala um símastrákinn sem mótar stefnu Samfylkingarinnar hvað varðar virðisaukaskattinn, sem upplýsti okkur um þá stefnu að þeir vildu ekki lækka matarskattinn. Ég er ekki að tala um hann. Ég er að tala um að frambjóðendur Samfylkingar vildu lækka jaðarskattinn. Nú er nákvæmlega það að gerast. Það verður ekki gert öðruvísi, virðulegi forseti, en með því að lækka skattprósentuna og afnema tekjutengingu.

Ég vil fá að vita hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni hvaða skoðun hann hafi á þessu máli. Var þar bara enn einn hringurinn sem Samfylkingin tekur í skattamálum fyrir kosningar? Meintu menn ekkert með því þegar þeir gengu á milli manna og vildu lækka jaðarskatta? Ég vil fá að vita það því að það skiptir máli.

Á sama hátt vildi ég fá að vita það hvaða skoðun hann hefur almennt á því að afnema eignarskattana.