131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:36]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit svo sem ekki hvort ég á að kalla þetta andsvar eða viðbrögð við þeirri undarlegu uppákomu sem hér varð.

Það er tvennt sem ég vil nefna. I fyrsta lagi, til þess að leiðrétta hv. þingmann, hef ég hér frumvarp til fjárlaga, stefnu og horfur fyrir 2005, og langar að lesa bara upp úr því, með leyfi forseta:

„Á þessum forsendum er áætlað að skatttekjur ríkissjóðs muni hækka um rúmlega 6% …“

Ég vil að þetta liggi fyrir. Hv. þingmaður sagði að skatttekjur ríkissjóðs mundu lækka sem hlutfall, (GÞÞ: Hlutfall af vergri landsframleiðslu.) við erum að tala um hagvöxtinn upp á 5%. (GÞÞ: Hlutfall af vergri landsframleiðslu.) Við erum að tala hér um hagvaxtarstærð, aukningu um 5% og 6–7% hækkun tekna. Bara til þess að leiðrétta hv. þingmann. Það er mikilvægt.

Eins vildi ég líka nefna að hefði hv. þingmaður verið við umræðuna þá hefði hann áttað sig á því að við höfum við þessar umræður lagt fram tillögur um að draga úr jaðarsköttum, mun meira en hér er gert ráð fyrir. Ég vildi bara nefna þetta tvennt við þessa umræðu. (GÞÞ: Þú hefur nógan tíma.)