131. löggjafarþing — 54. fundur,  9. des. 2004.

Tekjuskattur og eignarskattur.

351. mál
[16:38]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Tillögur okkar liggja fyrir og hv. þingmanni er í lófa lagið að líta inn í hliðarsal og skoða þær tillögur eða fylgjast með umræðunni.

Ég vildi aðeins nefna það, þótt það sé ekki mitt að taka hv. þingmann í einhvers konar hagfræðikennslu og ég líti ekki á það sem hlutverk mitt, en hagvaxtarspár fjármálaráðuneytisins gera ráð fyrir 5% hagvexti. Í sömu spá fjármálaráðuneytisins er hins vegar gert ráð fyrir 7% aukningu á skatttekjum. Hvernig getur … (GÞÞ: Hverjar eru tillögurnar um að lækka jaðarskattana?) Hvernig getur hv. þm. … (GÞÞ: Hverjar eru tillögurnar um að lækka jaðarskattana? Það er það sem ég spurði þig að.) Tillögurnar liggja hérna. (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumanni hljóð.)

Virðulegi forseti. Ég þarf svo sem ekki á aðstoð forseta að halda í þessum efnum. En ég lít ekki á það sem mitt hlutverk að kenna hv. þingmanni mannasiði.

Ég vil nefna í þessari umræðu að skatttekjurnar eru að aukast umfram hagvöxtinn og vildi ég vekja (Forseti hringir.) athygli hv. þingmanns á því.